Tuesday, November 24, 2009

Árósar-Hamborg-Frankfurt-HAmborg-Árósar

Ég er á leiðinni til Hamborgar og Frankfurt. Frankfurt til að hitta Sigurvin! Hamborg til að skoða skólann sem ég ætla mögulega að fara í skiptinám í. Vei. Hlakka svo til...

Tuesday, November 10, 2009

Neikvæðniskast vikunnar á prenti

Þá er undirrituð komin heim til Árósa eftir einkar ánægjulega nokkurra daga dvöl í Hamborg, borg flutningaskipa, Reeperbahn og HafenCity. Hamborg er virkilega skemmtileg borg og mæli ég eindregið með henni. Sigurður Arent Hamborgari fór með okkur um borgina og sýndi okkur alla földu fjársjóðina í Hamborg, þannig að við fengum Hamborgina beint í æð, óþynnta.

Ég var einmitt að skoða tónleikadagskrána í Hamborg þennan mánuðinn. Hún inniheldur meðal annars: Röyksopp, Franz Ferdinand, Skunk Anansie (eru þau ennþá að?), The Prodigy, Marilyn Manson, Placebo, Motörhead og Morrisey og fleiri fleiri... það eru skráð 613 tónleikaevent í nóvember í Hamborg. Þá eru klassísku/menningarlegu tónleikarnir ekki taldir með. Það er greinilega nóg að gerast þarna í Hamborg.

Ég var komin með svo mikla stórborgarlöngun, því að mér hefur stundum fundist ég vera að kafna hér í Árósum. Það að komast til Hamborgar var eins og fersk hafgola fyrir mig. Mér fannst ég allt í einu getað andað aftur. Ég er að íhuga að fara að hugsa um að pæla í að kíkja á skiptinám í Hamborg. Það gæti orðið gaman að skella sér þangað eina önn. Ég skellti myndum inn á facebook frá Hamborgarferðinni fyrir þá sem hafa áhuga og eru ekki viðkvæmir fyrir sveittum djammmyndum sem birtast inn á milli.

Ég ætla að komast í gegnum þessa önn hér í Árósum með því að hugsa til 20. des. Þá kemst ég heim til stórborgarinnar Reykjavíkur og fæ að knúsa Zorró.

Wednesday, November 4, 2009

Nú er allt að gerast sko

Er búin að vera að vinna í módelum undanfarið og það er bara helvíti gaman, það er að segja þegar maður hefur flotta tonlist til að vinna við.
Fékk góða ábendingu frá litla franska vini mínum ('88 módel á sömu önn og ég... hvernig er það hægt???) en það er þessi síða. Þetta er síða sem safnar saman mp3 sem hefur verið póstað á blogg um víða veröld og hægt er að ná í þessi lög á þessum bloggum. Þetta er snilld ef að manni langar að kynna sér nýja tónlist.

Mæli samt mikið með þessu lagi ef að ykkur vantar harðkjarna dansitónlist til að hlusta á meðan þið gerið módel, hlaupið á hlaupabrettinu eða eitthvað sem krefst orku og úthalds. Varúð: ekki fyrir alla.

Í dag var annars tryllt rignig, tryllt rok og snjókoma í svona 2 mínútur á tímabili. Það var meira að segja erfitt að hjóla NIÐUR bröttu brekkuna á leiðinni í skólann. Ég sko pakkaði mér inn í öll hlýju fötin sem ég kom með út: brettaúlpu, peysu, lopavettlinga, lopahúfu, trefil og sega mega útivistarbuxurnar mínar sem eru svo rosalegar að maður gæti lamið einhvern með þeim.

Þegar ég kom í skólann þá dó fyrrnenfdur frakki úr hlátri yfir þessari múnderingu. Ég sagði honum að fo*ka sér. Seinna þurfti ég að fara út í banka til að taka út evrur (ástæða? kemur seinna í þessu bloggi) og pakkaði mér aftur inn í allan útivistarpakkann og helv... frakkinn dó aftur og laumaðist til að taka mynd af mér. En ég sá það og kýldi hann í öxlina og sagði honum að það væri bannað að hlæja að mér.

Svo enn áðan þurfti ég að fara að redda mér kvöldmat. Pakkaði mér aftur í allan gallann og stoppaði svo aðeins til að spjalla við eina stelpu á leiðnni út, sný mér við og þá er frakkinn að taka video af mér í múnderingunni... geðveikt að reyna að kæfa hláturinn. Hvað er að? Ég lamdi hann... þannig að nú er það til á video hvernig ég lem frakka. Hvað er samt að þessum frökkum? Hann sagði um daginn að ég væri 'rude' og 'impertinent'. En við erum samt geðveikt góðir vinir og erum alltaf að hlæja saman.

Allavega, ástæðan fyrir evru-úttöku er sú að minns er að fara til Hamborgar á morgun, fimmtudag, til að sjá Röyksopp á laugardagskvöldið. Búin að redda mér fari ásamt kunningja mínum (sem byrjar á G og endar á -uðni) sem kostar 20 evrur aðra leið... með þjóðverja og fína Audi-inum hans. Vei. Verður spennó. Ætla að lesa 'Architecture Theories' á leiðinni. Planið er svo að leggja af stað frá Hamborg eldsnemma á mánudagsmorgun... eða kl. 06:15... sem er ógeðsnemma. En þá fer fíni Audi-inn og maður má nú ekki missa af honum.

Anyways, þá eru hér nokkrar myndir af því sem ég er að gera ákkurat núna klukkan 10 að kvöldi í skólanum.

Hér sést smá af concept-strúktúr verkefninu mínu

Ofurlímið sem gerir fátt annað en að líma mig við alls konar hluti. Límir ekki hluti við hluti sem eiga að límast... nei límir bara mig við hluti. Það er líka sterk lykt af því, þannig að maður er bara skakkur við notkun þess.

Fyrsta strúktúr-módelið mitt fyrir þetta verkefni.

Sunday, October 25, 2009

"Ég ætla að hætta að vera neikvæð"


Það er nýja markmiðið mitt.

Ég er nefnilega búin að vera að hugsa of mikið um það hvað Árósar séu eiginlega pínu boring staður og ég ætla að hætta því. Árósar er yndislegur staður. Bara bleik ský og einhyrningar.

Góðir hlutir í Árósum:

-Falleg græn svæði sem einmitt núna skarta sínum fegurstu haustlitum

Sigurvin og mamma komu í heimsókn um daginn og það var best í heimi að fá þau hingað. Við Sigurvin fórum upp í Risskov sem er risaskógur hérna í bænum. Versta var að ég var veik þegar þau komu í heimsókn og þegar ég var búin að ná mér, hafði mér tekist að smita Sigurvin af kvefinu mínu... samanber stóra stóra trefilinn á myndinni.

Einnig langar mig að tilkynna það áhugasömum að Sigurvin skrapp aðeins til Frankfurt í Germaníu meðan hann var hérna hjá mér og nældi sér í eitt stykki þjálfunartilboð þar. Og ef allt gengur að óskum í þessari þjálfun, þá erum við að fara að búa saman í Germaníu þegar ég er búin í náminu (eða fyrr ef að það er kúl skóli þar sem að hann nú endar). Vei!

-Fullt af geðveikt skemmtilegum Norðmönnum og annarra þjóða kvikyndum.

Norskar stelpur eru skemmtilegastar!
Þær gera nefnilega luftgítar í partýum með er mælikvarði á kúl... haha

-Fallegur bær, mjög krúttlegur og rómantískur.

Þetta er Sjællandsgade, rétt hjá heima hjá mér. Reyni að labba þessa götu sem oftast þar sem að hún er svo sæt.
Þetta er hluti af Klostergade, sem er í miðbænum. Þessi bindingsverkhús eru út um allar trissur.

-Ég bý miðsvæðis. Allt er innan 5-10 mínútna hjólatúrs.

Hér má sjá hvar ég á heima miðað við miðbæin sjálfan. Skrýtna rauða dótið með augað bendir á hvar ég á heima og rétt þar fyrir neðan hægra megin stendur 'Skole' og það er skólinn minn. Sjálfur miðbærinn er mjög 'compact' þannig að maður hefur ekkert að sækja í önnur hverfi bæjarins.

-Skólinn er skemmtilegur og ég er að læra rosalega mikið.
Hér er kort af skólanum. Hann er semsagt staðsettur út um allar trissur, en ég er byggingu sem er merkt númer 8.

-Nýja uppáhaldið mitt í Árósum er Listasafnið: Aros Kunstmuseum.

Þessi er táknrænn fyrir Aros safnið. Hann er á öllum bæklingunum og útgáfum safnsins. Hann er líka geðveikt flottur.

Núna er þar sýning eftir mann sem heitir Jeppe Hein og hann er að vinna rosalega mikið með skynjun. Verkin hans er mest megnis spegla og ljósaverk. Ljósin og sumir speglarnir eru tengd við hreyfiskynjara þannig að þetta er svona interactive sýning. Mjög skemmtilegt og allir, ungir sem aldnir, virtust skemmta sér konunglega yfir þessu.

Mér fannst þessi flottur. Annað hvort var ljós á stífa kassanum eins og á þessari mynd eða á kassanum sem virðist hafa bráðnað...

Ég gerðist félagi í Arosklúbbnum. Það kostaði mig 150 danskar. Þá er ég með ókeypis aðgang í heilt ár, eins oft og ég vil, sem er magnað þar sem að ein stök heimsókn fyrir námsmenn er 75 kr. Vei. Nú ætla ég að búa þarna.

Ætla að halda áfram að læra... eða glápa á einhverja innihaldslausa bandaríska þætti.




Sunday, October 11, 2009

Elefant-haustfrí!

Ég er komin í haustfrí í skólanum til 19. okt. Haustfrí eru gamlar leifar frá því að Danmörk var meira bændasamfélag en hún er í dag. Í eldgamla daga fóru allir krakkarnir heim til sín í þessu fríi til að hjálpa foreldrum sínum til við að ná inn uppskeru sumarsins, taka upp kartöflur og þess háttar. Ég nýt góðs af því... því að bæði mamma og Sigurvin eru í heimsókn hjá mér núna.

Sigurvin kom til mín á föstudaginn. Loksins loksins loksins. Best í heimi. Við lentum á Elefantbar á föstudagskvöldinu, sem var svona risapartý í skólanum. Þar var einungis seldur Elefantbjór (sem er frekar sterkur) og ráð og ræna fólks eftir því. Þetta var fyrsta partýið hér í Árósum þar sem var actually gaman og töff.
Hér má sjá mynd af Fílshausnum þar sem Plötusnúðastelpurnar héldu til. Þetta er trévirki, plastað með hálfgagnsæu plasti, með ljósum inni í... ásamt reykvél... ekkert smá mikill metnaður. Tónlistin bar hins vegar merki um aðeins minni metnað. Einstaka sinnum var góðum lögum laumað inn á milli Haddaway, 2Unlimited, Technotronics, Aqua. Já Aqua lifir enn góðu lífi hér í Danmörku.
Hér er svo panorama af partýinu. Hér má sjá fyrrnefndan fílshaus ásamt myndum sem var varpað á vegginn. Myndirnar sýndu annað hvort svona tetriskubba á fullri ferð, eða fíla að ganga í halarófu í mismuandi litum.


Hér má svo sjá mynd af vinnusvæðinu okkar í skólanum. Þarna hangandi fyrir ofan okkur er "Dynamic Structure" verkefni sem við gerðum í þar síðustu viku. Það var upphaflega fest á risastóra mdf plötu en við kipptum því bara af og hengdum upp fyrir ofan vinnusvæðið okkar.

Í gærkvöldi var okkur boðið til Silkiborgar í mat til góðra vina fjölskyldunnar, Karenar og Jens-Peters. Ég, mamma, Sigurvin og Svana fórum öll og áttum þar æðislega stund með góðum mat, góðu rauðvíni og síðast en ekki síst, landsleiknum Danmörk-Svíþjóð. Danmörk og Svíþjóð eru yfirleitt góðir grannar, en þegar kemur að því að keppa á móti hvoru öðru, þá er sko stríð.


Danir voru til að mynda alveg öskuvondir yfir þessu uppátæki einhverra mjög fyndinna svía (að mínu mati). En leikurinn fór 1-0 fyrir Danmörku, sem þó spilaði verr en Svíþjóð (heyrði ég út undan mér, enda ekki dómbær á hvað sé góður fótbolti og hvað ekki).

Nú ætla ég að njóta þess að vera með æðislegt fólk í heimsókn hjá mér....

Wednesday, September 30, 2009

Skólamyndir

Mig langaði að birta hér nokkrar myndir frá skólanum. Einnig við ég benda áhugasömum á það að mér tókst að setja inn vídeóið sem við gerðum... það er að finna neðst í síðustu færslu. Þeir sem eru ennþá áhugasamari um hvað er að gerast í skólanum, bendi ég á að kíkja á fésbók, þar sem ég hyggst birta myndir af mörgum af þeim verkum sem voru kynnt á sýningunni.

Annars gekk yfirferðin okkar rosalega vel og það var sko klappað fyrir videoinu okkar. Vei... og þrír kennarar komu til okkar eftir sýninguna til að fá að vita allt um þetta video... hvernig við hefðum nú gert það. Og annar kennari heimtaði að það yrði sett á sameiginlegan server skólans svo að allir gætu séð það.

Það sem er einnig fyndið er að Anita, norska stelpan sem er með mér í hóp er búin að vera heyra utan úr bæ af videóinu okkar. Þetta er greinilega svo lítið samfélag hérna að krakkar sem eru í internship á stofum hérna eru að heyra yfirmennina tala um "eitthvað" video sem "einhver hópur" á braut 5 gerði um greiningu sína af Berlínarverkefninu í skólanum. Vei fyrir því. Haha... SCORE!

En fyrst er mynd af mér áður en ég klippti á mér toppinn. Núna er ég komin með stuttan topp. Ég var eiginlega alveg að drukkna í topp eins og sjá má á þessari mynd.

Skólamyndir

Þetta erum við í hópnum mínum: Ég, Anita, Tina og Florent. Eftir sýninguna var bjór fyrir alla þar sem að einn hópurinn hafði prentað út alla pósterana sína í einhverju fáránlegu formati og vildi bæta okkur hinum það upp og keyptu því bjór á línua. Svo var meira að segja einn strákur sem vippaði fram köku sem hann hafði bakað, þannig að það var bara kaka og bjór strax eftir yfirferðina... sem var með eindæmum ljúft. Ef vel er að gáð, þá er þarna skuggi af hauskúpu beint fyrir aftan Florent. Þetta er litli franski djöfullinn sem fylgir honum... hann sést aldrei, nema á myndum.

Hér má svo sjá ofan í eitt af skólaportunum. Fólk að gera gifs-afsteypur. Held að þetta hafi verið krakkar á fyrsta ári sem fengu vélarhlut og áttu að hanna abstrakt utan um hann.

Hér er svo mynd af öðrum portgarði í skólanum. Við ákváðum að sleikja sólina í nokkrar mínutúr áður en við héldum áfram að vinna að módelinu. Þarna má sjá Florent og Anitu á bekknum næst okkur.

Ég bendi sérlegum áhugamönnum á að ég er að fara að setja inn myndir af fyrrnefndri yfirferð inn á facebook.

Bið að heilsa öllum.

p.s. Best í heimi var að fá kassa að heiman með bókum sem ég á, fötum og forláta flísteppi frá henni ömmu minni. Takk elsku amma!

Thursday, September 24, 2009

Úrvinnsla Berlínargagna



Það er búið að vera brjálað að gera í skólanum síðustu daga. Við erum búin að vera að vinna úr öllum þeim upplýsingum sem við söfnuðum að okkur í Berlín. Haldin verður sýning á afrakstri þessarar vinnu í fyrramálið. Ykkur er að sjálfsögðu öllum boðið að kíkja á mig milli 9 og 14 á morgun.

Hópurinn minn ákvað náttúrulega að fara krísuvíkurleiðina í þessari vinnu (af því að við elskum að vera í tímaþröng, eyða allt of miklum tíma í skólanum og sleppa því að borða), því að við ákváðum að gera Stop-Motion mynd um okkar niðurstöður í stað þess að gera upphengi. Þeir sem þekkja Stop-Motion, vita að það ferli tekur laaaaaangan tíma og krefst mikillar vinnu. Þannig að við erum búin að sitja sveitt við tölvur og myndavélar síðustu daga og nætur til að klára þetta blessaða myndband. Sem betur fer er myndbandið mjög fínt og flott miðað við þann stutta tíma sem við í raun höfðum til að gera videóið. Það verður svo sýnt á risatjaldi í fyrramálið fyrir alla á önninni. Vei. Við gerðum samt að sjálfsögðu líka upphengi. Ég á svo að kynna fyrir okkur, þar sem að þeim finnst ég vera best/skást í ensku í hópnum. Ég myndi að sjálfsögðu skella inn fyrrnefndu videói ef að bloggsíðan leyfði videó sem eru stærri en 100 mb. Videóið er sko 108 mb, þannig að það er pínu pirrandi að geta ekki deilt því með ykkur.

En þar sem að við í hópnum erum núna búin að eyða svo miklum tíma saman bæði kvölds, morgna og einstaka nætur, að við erum komin með rosalega mikinn einkahúmor sem vill myndast þegar þreytt fólk eyðir of miklum tíma saman. Ég heiti til dæmis núna Ragnaragnaragna þar sem að franski gaurinn setti nafnið mitt inn í eitthvað forrit sem les upp það sem maður skrifar og það hikstaði svo mikið að það sagði Ragna þrisvar. Þetta fannst öllum stórkostlega fyndið klukkan 3 að nóttu, þannig að nú heiti ég Ragnaragnaragna. Norska stelpan heitir núna Pdf, þar sem að í miðri hljóðupptöku þar sem enginn mátti segja neitt, var hún að vinna í einhverri mynd og var að vista myndina og sagði óvart "pdf" inn á upptökuna. En þetta er búið að vera rosalega gaman. Svo eftir sýninguna verður sko "fredagsbar" þannig að það verða allir hressir þá. Þá kannski þorir maður að fara að tala við þessa ógnvænlegu dani.

Annars er hér mjög nýleg mynd af mér fyrir þá sem mögulega sakna mín.
Þá kannski saknið þið mín minna...


Updeit: hér kemur vídeóið:

Tuesday, September 15, 2009

Berlín

Þá er maður nýkomin úr skólaferð til Berlínar. Berlín var ljúf í alla staði fyrir utan aumar axlir... Maður þurfti náttúrulega alltaf að vera að burðast með myndavél, skissubækur og allar tegundir af litum og pennum vegna verkefnisins sem við vorum að vinna að í Berlín. Ég hef þó ákveðið að blogga betur um verkefnið þegar það er farið að skýrast.


Hérna er mynd af okkur skvísunum sem leigðum okkur saman íbúð í Berlín. Það var líka mjög gaman að hitta hinar íslensku stelpurnar á deildinni loksins.
Talið frá vinstri: Árný, Eyrún, Móa, Magga, Veronica (sem er reyndar norsk) og ég. Þarna fórum við saman út að borða á laugardaginn á mexíkanskan stað, sem reyndist vera alveg glataður! En kvöldið endaði samt vel... skemmtanalega séð.


Hér er mynd frá einum af stöðunum sem við fórum á. Hann heitir Yesterday og af einhverjum ástæðum ramba ég alltaf þarna inn þegar ég er í Berlín. Það er samt búið að breyta honum aðeins núna. Í staðinn fyrir alla peningaseðlana sem hengu í loftinu þegar ég kom þarna í fyrsta og annað skiptið, hangir núna grænt loðið teppi, með fullt af pappamassafígúrum úr Mæju Býfluguþáttnum og sveppum. Frekar steikt, en afskaplega hressandi eftir flatneskju skemmtistaða hér í Árósum.


Þetta er einn uppáhaldsmaturinn minn í Þýskalandi. Kjúklingadöner með jógúrtsósu. Best, ódýrast og matarmest. Reyndar fékk ég mér svona bara einu sinni.



Ég arkitektaðist nú ekki mikið um borgina, einbeitti mér frekar að verkefninu sem við þurftum að vinna fyrir skólann. Ég var nú búin að sjá mikinn meirihluta þess sem kennararnir bentu okkur á að sjá. Ég fór þó og kíkti á Samnorræna sýningarskálann. Að þessu sinni var lítil krúttsýning um danskan sjálfbæran arkitektúr. Sjálfur litli skálinn utan um þessa dvergsýningu var byggður úr ávaxtakössum úr tré og svo hafði bara verið heftaður plastdúkur yfir til að hlífa fyrir veðri og vindum.



Þetta fannst mér frekar fyndið. Múltískófla fyrir alla sendiherrana. Það var búið að hengja hana upp á frekar afviknum stað í sýningarskálanum ásamt mynd af sendiherrunum við fyrstu skóflustunguna.



Við þessa litlu á sem rennur gegnum Kreuzberg hverfið sat ég með Anitu, norsku stelpunni í hópnum mínum og drakk einn bjór meðan kvöldið lagðist yfir borgina. Ótrúlega æðislegur staður. Við sátum á stepta kantinum hægra megin fyrir miðri mynd og ræddum heimsmálin og aðra þarfa hluti á Panskandinavísku og rétt innan við allan gróðurinn voru fullt af körlum og drengjum að spila botcha saman á mörgum völlum. Alveg frábært. Fyndið að segja frá því að ef ég byggi ekki með danskri stelpu, þá myndi ég örugglega ekki tala neina dönsku, því að eina fólkið sem maður talar við eru íslendingar og norðmenn, án þess þó að maður sé að sækja eitthvað sérstaklega í það. Spes...



Hér er svo lélegt mynd af einu besta sushi sem ég hef fengið. Ákvað að nýta tækifærið meðan maður væri í menningarborg að fá mér gott sushi.... og ómægod hvað þetta var delissíus. Öfugrúlla með gúrku, philadelphia rjómaosti, sesamfræ uatn á og djúpsteiktu lax innan í. Svo var túnfiskrúllan alveg snilld líka.



Ég vaknaði svo eldsnemma til að missa ekki af rútunni heim. Við vorum þó stoppuð af tollurum og lögreglu á leiðinni. Fyrst fengum við skilaboð um að sitja kyrr í rútunni, svo að finna til vegabréfin okkar. Svo var einn lögreglumaður sendur inn í rútuna og hann labbaði einn hring og út aftur án þess að líta á eitt vegabréf. Svo var okkur sagt að þeir ætluðu að sleppa okkur. En nei, svo var bílstjórunum tveimur skipað að taka út allan farangur út úr rútunni. Svo var öllum skipað að fara út úr rútunni með allan farangurinn sinn og svo öllum skipað að fara með farangurinn sinn í gegnumlýsingartækið sem þeir vorum með í hvíta vörubílnum þarna rétt hjá.


Svo að lokum er hér ein klassísk mynd af dönsku landslagi... Hugsið ykkur að sitja í 9 klukkuíma í rútu og horfa bara á endalaust svona...


Monday, September 7, 2009

Herra Fjóli

Má ég kynna ykkur fyrir Herra Fjóla!
Herra Fjóli er nýja notaða hjólið mitt. Fjóli er með svona líka agalega fína körfu framan á sem að er ákkurat passleg fyrir skólatöskuna mína. Ég gerði mælingu á hversu lengi ég er á leið í skólann á Fjóla og þá kom í ljós að ég er rétt rúmlega 30 sek að hjóla í skólann. Hins vegar er ég alveg svona 5-7 mín á leiðinni heim. Ég hef nefnilega einstækan hæfileika til að lenda alltaf í því að búa uppi á fjalli... meira að segja í Danmörku. En ég kvarta ekki, því að Fjóli er sko þriggja gíra og tekur hvaða dönsku brekku sem er í nefið.

Annars er það bara Berlín á miðvikudaginn. Reikna með að taka rútuna til Berlínar ásamt svona 80 öðrum, en mun svo búa í íbúð með íslenskum stelpum sem ég á samt eftir að kynnast betur. En þær buðu mér að vera með þeim í íbúð og auðvitað segir maður ekki nei við slíku boði. Það kostar 350 danskar aðra leið... sem er alveg einhver 8000 kall, en maður harkar það af sér og reynir bara að sleppa því að borða í staðinn þar sem að óvinur minn númer eitt: Lín er ekki ennþá búin að ganga frá mínum málum.

Við Guðni, sem er einnig nýbyrjaður í náminu nema á annarri deild, erum búin að kíkja tvisvar út síðan ég kom. Fórum aðeins út á lífið á föstudagskvöldið, og þar komst ég að því að það er EKKI hægt að ganga um á háum hælum í Árósum, þannig að ég varð pínu fegin að ég tók bara tvö pör með mér út. Við komumst líka að því að við þurfum eiginlega að finna stað sem væri svipaður Karamba eða KB eða Boston, en höfum ekki fundið neinn enn sem komið er.

Á laugardaginn var fór ég svo í danskt fertugsafmæli í Silkiborg hjá Jens-Peter, kærastanum hennar Karenar, þar sem smjör draup af hverju strái og bjórflöskur og rauðvínskaröflur birtust eins og englar af himni (vá frekar ýkt lýsing, en sönn þó). Ég gekk nú hægt um gleðinnar dyr, því að það er ekki hægt að vera þjóð sinni til skammar við svona tilefni en fór þó ekki í háttinn fyrr en um hálf fimm. Margir veislugestir gistu hjá gestgjöfum og það gerðum við einnig... það er að segja ég, Svana og Kim. Við fengum okkar eigið herbergi. Um morguninn var svo m0rgunmatur, heitar bollur, nýbakað rúbrauð, margar tegundir af ostum og djúsum.

Svo fékk ég lítið sjónvarp með mér í nesti þegar við kvöddum veisluhaldarana. Vei, þá þarf ég bara að finna mér sjónvarpsloftnetssnúru. Mun þó varla horfa á mikið annað í þessu sjónvarpi en fréttir, þar sem að skjárinn er í alvöru 14 tommur. Það er þó innbyggt vídjótæki í sjónvarpinu, þannig að ég gæti (endurtek: gæti) skaffað mér einhverjar gamlar spólur á klink ef ég vildi. Efast samt um það. Við skulum sjá hver viðbrigðin verða við að horfa allt í einu á 14" Dantax sjónvarp þegar maður er vanur fallega og fína B&O sjónvarpinu heima.

Er núna að standa í tölvuveseni, installa forritum og reyna að setja upp windows í tölvunni og bla bla bla... ýkt leiðinlegt. Ætti að vera að lesa greinar fyrir skólann, en langaði meira að blogga.

Ætla samt að segja þetta gott í bili. Farin að sakna allra. Túristaleiknum mínum fer brátt að ljúka og söknuður að fara kikka inn.



Thursday, September 3, 2009

Skólafregnir

Jæja góðir hálsar

Þá langar mig að segja aðeins frá skólanum mínum.

Fyrir utan að vera í 10 mín. göngufæri frá heimili mínu, þá er skólinn staðsettur í svona milljón byggingum á svona 100 metra radíus þannig að það getur alveg verið svolítið ruglandi að vita hvert maður eigi nú að fara fyrir hvert erindi.

Ég var svo frekar hissa að komast að því á kynningarfundinum á þriðjudaginn var að gert er ráð fyrir að öll kennsla á þessari deild fari fram á ensku, því að það eru svo rosalega margir erasmus og gestanemendur hvaðaæva að úr heiminum á þessari braut. Það skiptir mig nú engu máli hvort þetta sé á ensku eða dönsku eða jafnvel íslensku. Það er samt fyndnast í heiminum að hlusta á þessa misungu dönsku kennara tala ensku. Danir eru með svo rosalega sterkan hreim þegar þeir reyna að tala ensku að það er eiginlega bara meira en rosalegt. Svo er þeim alveg fyrirmunað að geta gert greinamun á eintölu og fleirtölu í töluðu máli. dæmi: There is a quite many peoples who live there and they is a cultural isolated unit.

Okkur var svo öllum skipt í hópa og var búið að raða hópunum niður í vinnustofurnar. Ég er í hóp með ítalskri stelpu sem heitir Tína, frönskum strák sem heitir Flórent en maður ber það eiginlega fram sem flo'r'ah og svo í lokin er norsk stelpa í hópnum okkar sem heitir Anette eða eitthvað svoleiðis. Hún er samt búin að vera í Árósum í 4 ár, eða frá því að hún byrjaði í skólanum. Hún var bara fyrsta daginn og er núna eitthvað mjög veik, þannig að við nýju nemendurnir erum búin að vera hlaupandi um eins og hauslausar hænur að leita að internetkóðum, prentkóðum, dyrakóðum, mismunandi skrifstofum, umsóknareyðublöðum og ég veit ekki hvað og hvað.

En já, frá 9-15 sept er svo förinni heitið til Berlínar með deildinni þar sem við eigum að takast á við verkefni sem á að tengja saman mismuandi heima borgarinnar, það er að segja austur og vestur ásamt því að tengja saman enskismannsland sem lá undir múrnum og nýbúagettóhverfið. Agalega spennó. Ekki skemmir að áin Spree rennur letilega þarna á milli þessara tveggja heima þannig að það verður spennó að sjá hvernig prógrammið þróast.

Segi þetta nóg í bili, enda yfirferð á morgun og maður þarf nú að vera vel útsofinn.

Tuesday, September 1, 2009

Árósar eru Smárósar!

Velkomin á upplýsingaveituna mína.

Hér ætla ég mér að skrifa aðeins um hvað á daga mína drífur meðan ég er í námi í Árósum, svo að þið getið fylgst aðeins með mér.

Ég ætlaði að byrja á að skella inn nokkrum myndum.


Þetta er húsið mitt á Fynsgade 9. Ég á heima í kvistglugganum. Gardínurnar fylgdu herberginu mínu og eru dregnar fyrir því að ég gleymdi að draga þær frá í morgun. Staðsetningin er æðisleg. Það tekur mig um 10 mín að labba í skólann (örugglega 3-4 mín þegar ég er búin að finna mér eitthvað hjól til að ferðast á)

Þetta er svo útsýnið úr boðrstofunni heima hjá mér. Útsýnið er rosalega flott í góðu veðri... svo fæ ég líka af og til að sjá alla hafnarkranana hreyfa sig.


Þetta er svo borðstofan mín, eða öllu heldur borðstofan sem ég hef fullan aðgang að. Ég á náttúrulega ekkert í þessu. Takið eftir fína fína appelsínugula Verner Panton lampanum sem að meðleigjandi minn á. Fínerí! Meðleigjandi minn er jafngömul mér og er að læra eitthvað hagfræði/banki/peningar-eitthvað og hefur mestan áhuga á að vinna með markaðsgreiningar og þess háttar. Hún er alveg svakalega fín og þægilegt að búa með henni. Hún er líka búin að sýna mér borgina og er búin að vera afar hjálpleg með þetta allt saman.

Hér er svo restin af borðstofunni ásamt holinu og dyrasímanum...
Kannski ekki mest spennandi mynd í heimi, en við vorum að spá í að skella upp smá hljómflutningsgræjum upp á skenkinn svo maður gæti hlustað á útvarp á morgnana og meðan maður er að elda.


Hér er svo dvergvaxna eldhúsið okkar. Við ætlum að kaupa grunnvörur sameiginlega í matinn þar sem að ísskápurinn er svo lítill að það þýðir ekkert að vera með tvö smjör og tvær gúrkur og þess háttar. Við ætlum líka að elda oft saman og hafa það huggulegt. Ég keypti basil-ið sem er í glugganum til að hún haldi að ég sé svona heimilisleg... haha.


Svo skellti ég mér til Óðinsvéa á sunnudaginn með fjölskylduvinkonunni Karen. Fórum að heimsækja Svönu frænku og Kim, kærastann hennar sem búa þar. Helga og Ævar voru í heimsókn þannig að það var alveg upplagt að skreppa yfir Litla-beltið.

Annars ætla ég að taka fleiri myndir af Árósum sjálfri sem fyrst. Og já, ég fæ húsgögnin mín sem ég keypti í Ikea í gær afhent einhvern tíma í dag, þannig að ég skelli örugglega bráðum inn myndum af herberginu mínu þegar ég er búin að skrúfa þetta allt saman.

Annars sakna ég ykkar allra... ótrúlega skrýtið að vera allt í einu bara ein í Danmörku. Reyndar var fyrsti skóladagur í dag og það var bara mjög fínt. Hitti þar íslendingana sem ég kannast nú við frá því í Listaháskólanum. En ég ætla að vera rosa dugleg að kynnast allra þjóða kvikindum hérna úti. Ég var meira segja sett í hóp með norskri stelpu, ítalskri stelpu og frönskum strák í verkefninu sem við erum að fara að takast á við á þessari önn. Segi ykkur meira frá því síðar.