Hvar á maður að byrja þegar maður hefur ekkert bloggað í fáránlega langan tíma þegar fáránlega margt hefur á daga manns drifið síðan síðast? Það er nefnilega aldrei nein lognmolla hjá okkur hérna í München.
Til að gera langa sögu stutta, þá lauk ég skiptinámsönninni minni í byrjun febrúar. Önnin var mjög strembin en ég naut þess að hafa svona rosalega mikið að gera. Ég er alveg á því að þýski skólinn krefjist meira vinnuframlags af nemendum sínum almennt heldur en í Árósum. Í Danmörku til dæmis er hönnunaráfanginn sjálfur 30 einingar. Hér er hönnunaráfanginn 12 einingar. Báðir þessir hönnunaráfangar krefjast jafn mikils vinnuframlags, en hér þurfti ég þá að taka 18 auka einingar til að ná uppí þessar 30 einingar. Það var frekar töff. En ég marði það með smá hjálp frá góðum vinum.
Ég hugsaði alveg um að skipta um skóla, því að líf okkar hér er svo ljúft. En skólinn hér er ekki til í að meta annirnar mínar í DK, yrði því næstum að byrja upp á nýtt í framhaldsnáminu. Þannig að við ákváðum að ég færi nú bara aftur til Danmerkur í haust til að klára þessa einu önn sem vantar upp á.
Við erum bæði búin að kynnast fullt af frábæru fólki hérna. Það eru eiginlega allir eitthvað svo fínir og almennilegir við okkur. Ég eignaðist mjög góða þýska vini í hönnunaráfanganum sem hafa svo kynnt mig fyrir vinahópnum sem svo tók á móti mér opnum örmum. Það er eitthvað við þýska mentalitetið sem bara smellur hérna hjá okkur... æi svona svartur húmor og örugglega einhverjar svipaðar heilabylgjur.
Lokamódel af verkefninu mínu sem ég vann í samvinnu við fína franska stelpu.
Eftir að skólaönninni lauk hjá mér skruppum við heim til Íslands til að hitta fjölskyldu og vini. Við ákváðum nefnilega að halda jólin hér í München og fengum mömmu, Gunnar og Eyjólf Inga til að koma til okkar. Það var ekkert smá notalegt að fá þau og líka gaman að geta sýnt þeim lífið okkar. Við héldum aðeins óhefðbundin jól hérna, fórum til að mynda í Dachau útrýmingabúðirnar á jóladag og fórum út að borða hamborgara um kvöldið.
Rétt eftir að við komum heim frá Íslandi í byrjun mars fór ég með tveimur vinum í vikuferð til Parísar að undirbúa verkefni sem við höfðum fengið úthlutað af skólanum. Verkefnið er að teikna upp gamalt byggingakomplex í útjaðri París og skila svo inn óaðfinnanlegum teikningum af öllu klabbinu. Var því ferðin til Parísar ætluð til gagnasöfnunar og ljósmyndatöku. Ég fékk að gista hjá Ásdísi vinkonu minni og áttum við frábæra daga saman. Eina sem skyggði á alla ferðina var ein lítil frakkastelpa sem er með okkur í þessum verkefnahóp. Hún var og er algjörlega friggin óþolandi, óalandi og óferjandi. En við förum ekki nánar út í það á þessu bloggi.
Alltaf sami klassinn yfir þessari París...
Ég og Ásdís á góðri stund. Held að við höfum meira að segja verið að rónast á bekk með hvítvínsflösku. Góðir tímar.
Hópurinn minn: fröken Óþolandi, Kevin og Julian
Fallegt götuhorn í París.
Stuttu eftir heimkomu frá París skelltum við Sigurvin okkur í brettaferð til Austurríkis með vinahjónum okkar. Það var alveg geðveikislega gaman... sérstaklega af því að ég hafði fengið lánað bretti og skó frá vinkonu minni hér. Mitt brettadót er orðið svo rosalega gamalt að ég held að ég gæti næstum ánafnað Þjóðminjasafninu því. Það er enginn smá munur að nota nýjar græjur. Algjör snilld. Loksins gat ég massað það að vera á snjóbretti, þó svo að Sigurvin hefði nú á orði að ég færi nú frekar hægt. En allur er varinn góður... og því var ég búin að fá mér snjóbrettahjálm. Fjólubláan sko! Núna er ég sko ein af svala fólkinu með hjálm. Hér þykir fólki maður vera fáviti ef maður er ekki með hjálm.
Grant, Susanne, ég og Sigurvin
Ekki amalegt veður!
Sigurvin og stóra köngurlóin sem er rétt hjá Krystalhütte.
Það er augljóslega hægt að sörfa hvar sem er...
Ekki ónýtt skíðasvæði
Meðan við vorum að brettast í Zillertal í Austurríki fengum við tölvupóst frá eigandanum að íbúðinni sem við bjuggum í í München. Hann vildi okkur út, því að við höfðum spurt hvort við mættum leigja íbúðina áfram, þá án húsgagna, því að okkur leið svolítið eins og við ættum heima á hóteli í þessari fullbúnu íbúð. Við vorum þá þegar búin að leigja hana í næstum ár og komin tími til að fara að fá sér sinn eigin sófa o.þ.h. Karlinn var nú ekki alveg til í það, þannig að úr varð að við ákváðum að finna okkur aðra íbúð til að búa í. Nú voru góð ráð dýr, þar sem að við vorum að fara til Sri Lanka nokkrum dögum síðar. Haldið þið ekki bara að Sigurvin hafi ekki fundið þessa fínu íbúð fyrir okkur, staðsetta eingöngu 5 mínútum frá íbúðinni sem við áttum heima í. Úr varð að við myndum flytja inn í hana 1. maí, tveimur vikum eftir að við kæmum heim frá Sri Lanka.
Ferðin til Sri Lanka var algjör draumur. Það er svo rosalega fallegt þarna, fólkið er svo almennilegt og gott. Maður var bara í sæluvímu þarna. Hótelið var alveg frábært. Það er staðsett alveg við suðurströnd eyjarinnar. Ströndin er alveg hvít og pálmatrén ramma inn heiðbláan sjóndeildarhringinn. Við fórum á köfunarnámskeið sem tók 3 daga. Núna megum við kafa niður á 18 metra dýpi. Við hittum alla fiskana sem léku í Finding Nemo, nema Nemo sjálfan. Hann hefur kannski bara verið með smá stjörnustæla. Við heimsóttum te-ekrur, ayurveda heilsugarða, skjaldbökubjörgunarstöð, tönn Búdda, fílabúgarð og margt, margt fleira.

Eiginlega enginn skuggi. Maður þarf sko að vera með hettu eða regnhlíf út af sólinni.

Sigurvin og ég að pósa með blinda fílnum.

Á skjaldböku-björgunar-setrinu. Við "keyptum" 20 skjaldbökur sem við fengum að sleppa í sjóinn. Það var svakalega sætt að sjá þær spretta áfram í sandinum að reyna að ná sjónum.

Fallegt sólarlag við Galle.

Maður verður nú að pósa á hvítu ströndinni.
Annað markvert sem kom upp á var að Sigurvin tókst svona þvílíkt vel að koma mér á óvart og var búinn að skipuleggja einka-5 rétta kvöldverð í tunglskininu á ströndinni í samráði við brytann og bað mín. Ég náttúrulega stenst ekki svona mikla rómantík og flaug á bleiku skýi væmninnar það sem eftir lifði kvölds. Sigurvin innsiglaði þetta svo með ofsa fallegum hring sem hann hafði keypt áður en við fórum til Austurríkis á bretti. Málið er samt að hann lét hring á mig sem þýðir að ég er lofuð, en hann er ekki með neinn hring, þannig að hann heldur því fram að hann geti enn gert það sem hann vill. Hans orð, ekki mín! haha.
Eftir heimkomu tók við rosa stress með að flytja. Hér í Þýskalandi er hefð fyrir því að íbúðir eru seldar og leigðar án eldhúss. Við þurftum því að fara í að kaupa okkur eldhús. Þar sem að við vorum nú ekki búin að kaupa okkur nein húsgögn áður, þá tóku við endalausar ferðir í milljón mismunandi húsgagnabúðir. Það er nú ekki um auðan garð að gresja hér hvað þau mál varðar. Mamma kom í heimsókn til okkar rétt áður en við fluttum og að sjálfsögðu tekur maður sér smá frí frá stressi og stússi þegar mömmu manns ber að garði. Við skelltum okkur til Salzburg saman og skoðuðum gamla bæinn og kastalann. Mikið rosalega er Salzburg falleg. Við höfðum nú bara ekkert komið þangað síðan 2006 eða 2007. Mamma var líka ofsalega dugleg að koma með okkur í húsgagnabúðir og hjálpaði okkur að velja inn í nýja eldhúsið.
Ég og Sigurvin að spóka okkur í sólinni í Salzburg.
Fallegt útsýni yfir borgina frá kastalanum.
Flutningar eru frekar mikið project þegar maður býr á 6. hæð og með engri lyftu. Það voru því mjög þreyttar lappir sem lögðust til hvíldar þann daginn. Sem betur fer fengum við hjálp frá vini Sigurvins. Hann átti sko skilið Thule.
Við tók einn mánuður af eldhús- og sófaleysi. Já! Þið lásuð rétt. Hér í Þýskalandi er allt sérsmíðað fyrir þig. Það þýðir ekkert að labba inn í búð og segja 'mig langar í þennan sófa núna'. Onei, þá þarf að sérpanta hann fyrir þig og þú færð að ráða áklæðinu og löppunum og öllu því. Það er eiginlega ekkert til á lager... enda allt sérsmíðað hér í Þýskalandi.
Pabbi og Stína komu til okkar í rúmlega viku meðan á þessum x-lausa mánuði stóð. Pabbi hélt upp á fimmtugs afmæli sitt hérna hjá okkur og buðum við þeim ýkt ótrúlega fínt út að borða á stað hérna nálægt sem heitir Nektar. Delisssiösss. Við plömpuðum með þau út um alla borg, sýndum þeim nær alla króka og kima auk þess sem að við skruppum í ferð til Königssee, sem er án gríns eitt magnaðasta stöðuvatn sem ég hef séð.
Trítluðum aðeins þarna inn eftir.
Pabbi og Stína á góðri stund.
Við fengum þessa líka brakandi blíðu og skelltum okkur í smá hringsiglingu um vatnið sem liggur alveg að klettarótum alpanna. Bergmálið þarna er alveg æðisgengið. Svo um leið og við settumst inn í bílinn til að keyra heim, byrjaði að rigna, þannig að það var alveg pörrrrfekt.
Við Sigurvin úti að borða með pabba og Stínu á afmælinu hans pabba.
Við erum svona hægt og rólega búin að vera að gera íbúðina klára. Hún er að okkar mati alveg að detta í það að verða "okkar". Sumarið er löngu komið og það er grillað út á svölum a.m.k. tvisvar í viku og skolað niður með ljúfum veigum.
Huld, systir mömmu var hjá okkur í nokkra daga eftir að hafa verið á námskeiði í Stuttgart. Við áttum hér mjög notalegar stundir með henni. Hún hafði nú komið nokkrum sinnum áður til München í denn og þótti gaman að koma aftur og sjá hvað hefur breyst.
Amma kemur í til okkar í nótt og ætlar að vera hjá okkur í 10 daga. Við ákváðum að bjóða henni til okkar, því að amma er alltaf svo hress og skemmtileg og allaf til í tuskið. Einnig hefur hún hjálpað okkur svo mikið í gegnum árin þessi elska. Meðal annars pakkaði hún niður öllu eldhúsdótinu okkar þegar við fluttum út til Þýskalands. Ég er að plana að skella mér með hana eitthvað út fyrir landsteinana... væntanlega í suðurátt. Held að það væri ofsalega gaman að fara með henni til Verona á Ítalíu. Sjáum hvað setur.
Við komum sjálf heim 22. júlí - 15. ágúst. Stefnan er sett á giftingu 13. ágúst... sem er laugardagur en ekki föstudagur! ;) Annars stendur bara til að fara í fjallgöngur, veiði o.þ.h. heima á Íslandi í sumar. Þangað til lætur maður sér það nægja að klifra eitthvað um í ölpunum og chilla í bjórgörðunum.
Þvílík gæfa fyrir Humah
ReplyDeleteVei blogg! Takk fyrir að setja mynd af okkur sem lítur út eins og ég hafi einokað hvítvínið! :) p.s. Mig langar að sjá fína hringinn.. Dessert
ReplyDeleteSkemmtileg lesning!
ReplyDeletehlakka svooo til að sjá ykkur í sumar ;D
kv. sunna
Jeij! :) Mig langar líka að sjá hringinn! Flott módel! Hlakka til að sjá þig í sumar og í haust! Blablabla! :) xx
ReplyDelete