Saturday, October 2, 2010

Öppdeit

Eftir að við Sigurvin komum aftur heim til München eftir frábæra daga heima á Íslandi, vorum við næstum með stöðugan gestagang. Til að byrja með kom Anita, norsk vinkona mín úr skólanum í Árósum, í heimsókn í tvo daga. Hún var sjálf að klára sitt skiptinám í skóla í Stuttgart og ákvað að nýta tækifærið og kíkja við í München. Hún átti ekki orð yfir því hvað borgin væri æðisleg og er hún núna að plana endukomu seinna í þessum mánuði.

Við Anita á góðri stund í enska garðinum.

Björk og Öddi

Strax þar á eftir komu tengdó, Björk og Öddi, í heimsókn. Þau voru hér í 12 daga og var mikið gert og mikið farið meðan á þeirri heimsókn stóð. Við fórum meðal annars niður að Schloß Neu Schwanstein, sem er fyrirmyndin að Disney lógóinu (þið þekkið nú væntanlega öll kastalann í Disneylógóinu).

Neu Schwanstein

Alparnir að speglast í vatninu við Neu Schwanstein.

Þar sem að GPS tækið okkar, hún Ráðhildur, getur verið ansi skrýtin, þá lét hún okkur fara alla litlu, krúttlegu sveitavegina þangað niður eftir. Það er alveg magnað að fara þessa litlu vegi, því að þeir leiða mann gegnum skóga, meðfram vötnum og gegnum pínulítil þorp, þar sem öll húsin eru allavega 300 ára gömul og skilti fyrir utan næstum hvert og eitt þar sem að heimatilbúnar matvörur eru boðnar til sölu s.s. mjólk beint úr kúnni, heimagerðar sultur, nýveiddir silungar og þurrir brenniviðarbútar. Maður býst jafnvel við að á hverri stundu ryðjist riddarar og drekar fram, því að þetta er allt svo ævintýralegt.

Chiemsee

Við fórum einnig niður að Chiemsee vatninu, sem er ein helsta ferðamannaparadís Þýskalands. Chiemsee er mjög stórt stöðuvatn, svipað stórt og Þingvallavatn og þangað fara Þjóðverjar til að hanga á ströndinni, leigja sér bát eða synda. Við vorum ótrúlega heppin með veðrið, því það var alveg glampandi sól. Við keyptum okkur dagsmiða í ferjurnar og gátum því siglt fram og tilbaka eins og okkur lysti. Þarna er einnig að finna nokkrar eyjar út í miðju vatni og á einni þeirra sem kölluð er Herreninsel er risastór höll í anda Versala. Hana lét sami gæi byggja og byggði Disney kastalann. Hann var svona Michael Jackson síns tíma. Hann lokaði sig alveg frá umheiminum, eyddi öllum peningum fylkisins í eitthver einka-geðveikisverkefni þangað til honum var steypt af stóli.

Fraueninsel

Chiemsee í brakandi blíðu

Stuttu eftir að tengdaforeldrarnir voru farin aftur heim til Íslands, fengum við heimsókn frá Ásdísi vinkonu okkar, sem ákvað að skreppa til okkar frá Sviss, þar sem hún hafði verið í heimsókn.

Ásdís og Sigurvin eftir að Sigurvini tókst að missa allt klinkið sitt
ofan í bjórinn sinn. Geri aðrir betur!

Henni leist svona líka vel á allt hérna að hún ákvað að vera hjá okkur það sem eftir lifði ferðar. Við fórum með hana í Dýragarðinn og skríktum við eins og smákrakkar yfir öllum dýrunum, líka Sigurvin sko!

Þessari mynd stal ég frá Ásdísi því að mér finnst þetta óborganlega fyndin mynd.


Þessi var helvíti hress.


Sigurvin, má ég eiga sel? gússíbú!

Þegar hér kemur til sögu var Ásdís búin að spyrja mig hvort að mig langaði að koma með henni að vinna á Norrænu í einn mánuð. Mér fannst ég ekki getað neitað því tilboði, þar sem að ég var búin að vera atvinnulaus í allt sumar. Önnur ástæða var af því að skólinn byrjar svo seint hjá Þjóðverjunum og hafði ég því fullt af tíma til að skella mér. Úr varð að ég skellti mér með henni á Norrænu.

Til að byrja með þá kíktum við til Árósa, þar sem við gistum hjá Guðna og kíktum á Árósa festivalið sem var að byrja þá. Það var rosa gaman að sjá borgina í sparibúningnum sínum. Það var til að mynda búið að koma fyrir stóru grænu landslagi á miðju aðaltorginu, sem er venjulega bara grátt og leiðinlegt og tómt ferlíki. Einnig voru þar haldnir mis góðir tónleikar... aðallega vondir.

Við flúðum miðborgina í smá stund og fengum okkur
einn bjór út í "garðinum" hans Guðna.


Guðni og Ásdís... og kippan

Við náðum líka að hitta Maríu aðeins, sem var með mömmu sína í heimsókn ákkurat á sama tíma. Þar sem að mömmur ganga alltaf fyrir, þá náðum við ekki að hitta hana mikið, en María ákvað því bara að bjóða okkur í frábæran brunch með heimabökuðum gulrótabollum og öðru gúmmelaði.

Við Ásdís tókum svo lestina til Esbjerg þar sem Norræna kom að landi. Hún er eiginlega miklu stærri og meiri en ég hafði gert mér í hugarlund.

Norræna við landfestar á Seyðisfirði

Seyðisfjörður by night.

Seyðisfjörður og Norræna á góðum degi.

Við Ásdís bjuggum saman í káetu og vil ég halda að sú sambúð hafi gengið bara ágætlega. Það sem kannski bjargar þessu er að þegar maður er ekki að vinna, þá er maður sofandi. Og sofa er það sem maður gerir sko mikið af þarna. Maður reyndi sko að grípa allan lausan tíma til að sofa, enda hef ég nú þróað með mér þann undraverða hæfileika að geta sofnað hvenær sem er. Það getur verið þægilegt stundum. Ég fór nú alveg nokkrum sinnum í ræktina um borð. Það er eitthvað alveg ótrúlega steikt að reyna að hlaupa beint á hlaupabretti um borð í skipi. Ég er viss um að það reynir meira á en hlupabretti á landi. Maður þarf sko þvílíkt að hafa fyrir því að halda sig á brettinu. Það að fara í sund þegar er vont í sjóinn er alveg ótrúlega fyndið. Þá hendist maður sko til og frá eins og gúmmíönd og ræður ekki neitt við neitt.

Mér fannst fyrsta vikan frekar erfið, en alltaf skánaði vistin. Það var samt erfitt að vera svona lengi frá Sigurvini, sem lét mig nú oft vita að honum fyndist nú komið nóg og að ég ætti að leggja frá mér það sem ég væri að gera og koma bara heim til München. Það sem bjargaði þessu öllu var náttúrulega þessi frábæri félagsskapur um borð. Kynntist frábærum stelpum sem allar voru að safna sér fyrir einhverjum frábærum áformum. Ein var að safna pening til að flytjast til Stokkhólms, önnur að safna pening til að notað meðan hún væri í sjálfboðavinnu við að sjá um tígrisdýr á Thailandi og ein sem ætlar að flytjast til Suður Frakklands til að læra frönsku. Svo kynntist ég líka einum strák sem var að safna sér fyrir því að komast í frönskuskóla í Senegal, því að hann langar að tala frönsku með afrískum hreim. Bróðir hans var einmitt að fara að vinna á náttúruverndarsvæði fyrir ljón í Simbabwe og Zambíu. Mjög magnað alveg hreint.


Atlantshafið á góðum degi!

Annað sem var alveg frábært við þessa vinnu var til að mynda útsýnið sem maður fékk (þegar var gott í sjóinn það er að segja!) Og það þriðja góða var það að komast til Færeyja, sem ég er ekki viss um að ég hefði nokkurn tíma gert, nema vegna þess að ég var fyrir einhver undarleg örlög endaði á Norrænu. Þórshöfn er í marga staði alveg ótrúlega fallegur bær. Læt myndirnar tala sínu máli.

Ásdís og Rannveig í Þórshöfn

Týpísk gata í Þórshöfn, minnir mann svolítið á Akureyri.

Haustið komið til Þórshafnar.

Nýmóðins byggingar er líka að finna í Þórshöfn.


Höfnin þétt fléttuð inn í borgina!

Sushi staður-INN í Þórshöfn

Það sem er svo frábært við tímann er að hann getur verið svo lengi að líða en svo þegar maður lítur tilbaka þá finnst manni svo stutt síðan allt gerðist. Þannig var það þear ég leit tilbaka á Norrænu eftir að hafa lokið mánaðarvinnunni og veifaði Ásdísi bless. Nú hlakka ég mest til að fá peningana mína, sem gæti þó tekið svolítinn tíma að fá (hef heyrt að færeyska bankakerfið sé ekki mjög skilvirkt).

Strax daginn eftir að ég kom heim aftur fórum við Sigurvin á Októberfest, sem er eins og allir vita árleg drykkju- og gleðiveisla hér í München. Borgin er núna alveg troðfull af fólki sem kemur hvaðanæva að til að taka þátt í Októberfest. Það er næstum skylda að vera í hefðbundnum bæverskum búningum á hátíðinni og ákváðum við Sigurvin að taka þetta mjög hátíðalega og skelltum okkur í sitt hvorn heilbúninginn.

Ég í Dirndl-inum og Sigurvin í Lederhosen.

Það var alveg ótrúlega gaman að hafa upplifað októberfest, en þetta er samt svo rosalega mikið fyrirbæri og orkusuga að maður fer nú ekki oft niður á engi til að taka þátt.

Það er hægt að dunda sér við ýmislegt á Októberfest, eins og til dæmis að kúldrast saman í hrúgu. Mjög karlmannlegt.


Mynd af Októberfest-tjaldinu sem við vorum í...
meðan allir voru enn svolítið dannaðir... og enn í fötunum.

Nú bíð ég bara eftir því að skólinn minn byrji, sem á að vera í kringum miðjan mánuðinn. ÉG fór í dag og keypti mér skissublokk, blý og vatnsliti, því að ég ætla að nýta tímann og æfa mig að teikna áður en skólinn byrjar. Keypti meira að segja teiknibók líka... á þýsku og geri aðrir betur.

Monday, August 16, 2010

Nýbúinn í Þýskalandinu

Það gengur bara aldeilis ágætlega að aðlagast þýsku samfélagi. Reyndar hef ég kannski ekki ennþá þurft að láta á það reyna að samlagast mikið, þar sem að ég er víst það sem kallað er 'heimavinnandi húsmóðir' því skólinn minn byrjar ekki fyrr en um miðjan október. En það gengur mjög vel að sinna öllum þeim erindum sem umheimurinn krefst af heimavinnandi húsmóður.

Til að mynda lendi ég mjög oft í því að þýskt eldra fólk biður mig um hjálp í stórmörkuðunum, þá helst til að hjálpa sér að finna eitthvað sérstakt, hjálpa því að ná í einhvern hlut sem er of hátt uppi, nú eða bara til að spjalla í röðinni. Þetta getur reynst manni erfitt, enda á eldra fólk meira til að tala við mann bæversku, sem er eins og allir vita ekki tungumál. Þið getið væntanlega séð fyrir ykkur hversu vandræðaleg samræða kom upp á milli mín og gamallar konu sem vildi ólm segja mér frá mjaðmaaðgerðinni sinni meðan við biðum í röð á kassanum. Hún var með tvær hækjur og var eitthvað að reyna að ná í veskið sitt eða eitthvað og ég spurði hana kurteisislega hvort hana vantaði aðstoð með eitthvað. Sú ljómaði í framan og með fyrirgreindri atburðarás lenti ég í mjaðmaaðgerðarrausi á bæversku. Ég er samt búin að komast að því að með að 'já-a' og þykjast vera hissa inn á milli þá fattar fólk yfirleitt ekki að ég skil ekki orð af því sem það er að segja.

Við skruppum til Íslands í sumarfrí í tæpar 3 vikur í júlí. Mikið var gaman að hitta allt fólkið aftur. Vildi nú bara helst að maður hefði haft lengri tíma. En þetta er allt svo flókið þegar maður á mörg 'heim'. Eins og núna er München 'heim' og var því líka mjög gott að komast 'heim til München' eftir að hafa verið á Íslandi. En við vorum dugleg að ferðast um landið (innan skynsamlegra vegalengda). Fórum upp í bústað á Þingvöllum, skruppum á Snæfellsnes, kíktum við í bústað við Andakílsá. En bróðurparturinn fór í að hangsa í uppáhaldinu, nefnilega 101.
Það kom okkur nú mest á óvart öll þessi túrista/lopapeysu/lunda/ísbjarnarbúðir sem greinilega hafa sprottið upp eins og gorkúlur í fjarvist okkar. Alveg hreint allt morandi í þessu. Og svo ekki sé minnst á þetta hugtak sem tröllríður öllu: Icelandic design. Hvað er það? Með því að labba aðeins um í mismunandi búðir komumst við að því að það er allt Icelandic Design, alveg sama hvort það er eitthver tryllingslega flott fatahönnun niður í það að vera einhver ógeðis gler-sullum-bulla-verk.

Einn af hápunktum Íslandsferðarinnar hlýtur að hafa verið ferðin upp í Kerlingarfjöll, sem var á vegum Hálandaferða Óskar. Þar var farið með okkur um jarðhitasvæðin sem jafnvel stendur til að virkja og fengum við miklar og góðar lýsingar frá tveimur jarðfræðingum um fyrirhuguð áform Landsvirkjunar. Mikið yrði það mikill skaði ef að af yrði. Þetta er svo fallegt og áhugavert svæði og svo merkilegt að í mínum bókum myndi það flokkast undir einhvers konar helgispjöll að hefja fleiri tilraunaboranir. Við tókum svo rosalega mikið af myndum í þessari ferð að það er rosa verk að ákveða hverjar séu bestar fyrir birtingu á veraldarvefnum.

Nærri strax eftir að við komum heim til München kom Anita vinkona mín í heimsókn. Hún gisti hjá okkur í tvær nætur og þótti okkur rosalega gaman að hafa hana. Henni kynntist ég í Árósum í skólanum, en hún var síðustu önn í skiptinámi í Stuttgart. Ég hafði áður heimsótt hana í Stuttgart í vetur og skemmtum við okkur vel saman þar, enda mikið að gerast þar... byggingalistarlega séð. Hún var nú sjálf alveg yfir sig hrifin af München og sagði að hún hefði nú örugglega komið hingað í skiptinám ef að kærastinn sinn hefði ekki verið fyrir í Stuttgart.

Strax eftir að Anita fór, komu tengdaforeldrarnir, Björk og Öddi í heimsókn. Það var rosalega gaman að hafa þau hérna hjá okkur. Við náðum að gera alevg heilan helling með þeim. Sigurvin leigði bíl og skruppum við að Neuschwanstein kastalanum (sem einnig er nefndur Disneykastalinn). Við fórum líka að einum aðal sumarleyfisstöðum Þjóðverja, Chiemsee, sem er stöðuvatn sem er aðeins minna en Þingvallavatn. Þar eru eyjar sem heita Herraeyja og Frúareyja. Á Herraeyju byggði sami brjálæðingurinn og byggði Disneykastalann sér eins konar eftirmynd af Konungshöllinni í Versölum í Frakklandi. Já þessi Ludwig II var alveg bilaður. Mæli með að fólk gúggli kauða til að kynna sér þennan Michael Jackson fortíðarinnar.

Við Sigurvin skildum þó gömlu hjónin eftir í München þegar við brunuðum til Frankfurt til að leysa út jólagjöfina okkar (frá okkur!). Nefnilega U2 tónleika á Allianz Arena. Vá hvað þetta var alveg rosalega mikil upplifun. Ég fór sko næstum að grenja. Bara næstum sko. Það eina sem skyggði á ferðina var að ég hafði óvart bókað hótel í sveitta ógeðslega rauða hverfinu í Frankfurt, sem er svo mikið gettó að manni er sagt að ganga allss ekki þar um á kvöldin og helst ekki á daginn. Við lögðum bílnum aðeins frá hótelinu og gengum að hótelinu og lentum næstum í manni sem var í svo mikilli fíkniefnavímu að hann henti heilu reiðhjóli út á götu og öskraði á ímyndaða vin sinn. Og hinu megin við götuna var ein hóra að halla sér upp að umferðarskilti í rifrildi við einhverja 4-5 gaura. Þegar við komum inn á hótelið þá var okkur tilkynnt að það hefði sprungið vatnsrör á hótelinu, þannig að það var búið að bóka okkur á annað hótel aðeins meira inni í hverfinu. Ekki gott. Við löbbuðum fyrir fyrsta hornið og þar var mjöf illa farin kona að reykja krakk í krakkpípunni sinni. Við hliðina á nýja hótelinu var íbúðablokk þar sem að eitthvað latínó gengi bjó...allir gaurarnir berir að ofan, geðveikt buffaðir úti á svölum, hlustandi á eitthvað latínórapp og galandi á hvern annan milli hæða. Fyrir utan hótelið sátu 5 manneskjur á útbreiddum pappakassa að betla og einn annar rótaði í ruslagámnum fyrir utan hótelið. Við löbbuðum stjörf inn á hótelið og þegar við sáum að ALLAR upplýsingar voru á kínhversku og að gaurinn í lobbýinu var óljóslega einn af kokkunum á kínverska matsölustaðnum við hliðina á, þá sagði Sigurvin: NEI, ég vil ekki láta bjóða mér þetta! KOMUM. Þannig að við enduðum á að fara á eina stærstu hótelkeðju í Þýskalandi af því að þá veit maður alveg að hverju maður gengur. hahaha. En þetta var rosleg 30 mín. lífsreynsla.

En fyrir þá sem ekki vita er ég að fara að verða sjóari. Sjipp-o-hoj! Já, ég er að fara á verktíð með Ásdísi á Norrænu. Við erum að fara að þjóna þar. Ég þarf að vera komin til DK-Esbjerg 28. ágúst og verð í vinnunni stanslaust í 4 vikur. Örugglega mikil þrælavinna, en ég er nokkuð viss um að þetta verður gaman. Ásdís er nefnilega alveg pínu skemmtileg :) þannig að það verður gaman hjá okkur. Ég ætla að reyna að koma við í Árósum áður til að ná í vetrarfötin mín sem ég neyddist til að skilja eftir hjá Maríu vegna þess að þau hefðu með engu móti náð að vera innan þeirra 20 kg sem mér leyfðist að taka með mér í flugið frá Árósum til München þegar ég flutti hingað í vor. Það þýðir nefnilega örugglega ekkert að vera bara í einhverjum sumarkjólum og sandölum hérna í vetur.

Nú er ég aldeilis búin að stikla á stóru hérna. Vil benda áhugasömum á að það er hægt að sjá myndir frá okkur á feisbúkk. Bestu kveðjur til ykkar skemmtilega fólksins.


Sunday, June 13, 2010

Það var með smá trega sem ég kvaddi Árósar. Þar var maður búin að eignast svo góða vini og kunningja, þó mest meðal skiptinemanna, þar sem að danirnir eru ekki alltaf manna hressastir í samskiptum. Það var þó fínt að minna sjálfa sig á það að þessir vinir mínir eru hvort sem er að snúa aftur til síns heima. Maður á þó gott íslenskt bakland þarna norðurfrá í Árósum sem ég á eftir að sakna mikið.

Mynd af mér og Maríu á góðri stund í Árósum.

Kom hingað á mánudaginn var og síðan þá er búið að vera alveg vangefið heitt hérna. Heimamenn segja að þetta sé mjög óvenjulegt. Við fundum hitamæli hérna í íbúðinni okkar og hann sýndi að það væru 32° inni í íbúðinni og svo sprengdi hann skalann þegar við settum hann í stól úti á svölum. Skalinn náði upp í 45°.

Við Sigurvin erum þrátt fyrir hitann búinn að fara tvisvar út að skokka síðan ég kom, þar sem að Sigurvin lofaði að hjálpa mér að komast í smá hlaupaform. Hann er náttúrulega gömul hlaupakempa og getur hlaupið nánast endalaust án þess að svitna. Ég kalla hann "þindarlausa kvikyndið". Ég dáist samt að þolinmæði hans, því að það getur varla verið gaman að fara út að hlaupa með manneskju sem varla getur hlaupið 2-3 km. En hann er harður við mig og pískar mig áfram... sem er kannski bara ágætt, þar sem að maður er alltaf svo góður við sig. ("ái... núna meiði ég mig aðeins í þindinni, ég finn að ég er að reyna á mig.... Ég ætla bara að labba restina...")

Annars fórum við Sigurvin út á lífið með einhverjum vinnufélögum hans í gær. Við vorum þó ekki lengi að, því Sigurvin þurfti að standa vaktina daginn eftir í vinnunni. Þetta var allt alveg úrvals fólk og buðu stelpurnar mér að vera með í djammklúbbnum þeirra, sem heitir "Die Teufelinnen by night" eða eitthvað svoleiðis. Hljómar... spennandi? jájá.

Við komum annars heim 8-27. júlí. Planið er að hitta vandamenn og vini, skreppa út á land... og fara í sund. Ahhh. Hlakka mjög til að kíkja heim!

Sigurvin í sólbaði í Englischer Garten
Húsið okkar. Við búum á efstu hæð, sem er f***in' 6. hæð. OG það er engin lyfta, en það er í sjálfu sér ekkert það slæmt. Skulum samt sjá hvað mér finnst um þetta, eftir að við erum búin að bera upp dótið okkar, sem á að koma á þriðjudag eða miðvikudag. Gaaaaad!

Wednesday, March 10, 2010

Er bara búin að vera á fullu í skólanum síðan ég skrifaði síðast. Skilaði inn prógrammi á föstudaginn. Og að sjálfsögðu var haldið upp á það með glans um kvöldið. Deildin hennar Maríu vinkonu minnar helt "fredagsbar" í kantínunni í skólanum til að fjármagna skólaferðalag til Samsö. Ég skellti mér þangað með vel völdu liði og dönsuðum við eins og mófós allt kvöldið. Þegar partýið var búið niðri í skóla, fórum við heim til eins sem býr við hliðina á skólanum í minipartý til að drekka aðeins meira. Síða fórum við í Burlesque-partý hjá Kaospilotunum, sem var alvge fáránlega kúl. Korselett, háir sokkar, blúndur og 1920's þema. Gaurarnir með kúluhatta og hvíta hanska og sumir berir að ofan með axlabönd og búnir að teipa yfir geirvörtunar á sér og ALLT stappað af fólki og fáránlega skemmtileg tónlist. Sjón var sögu ríkari skal ég segja ykkur. öss!

Svo er ég byrjuð í ræktinni. Er að fara í maga/rass/læri á eftir. Verð sko komin í fáránlega gott form eftir nokkra daga... eeeh...

Hér er mynd af mér, fáránlega mikið að gera í skólanum á mánudagseftirmiðdegi! Ég er í frábærum hóp sem finnst ekkert að því að fá sér einn kaldan úti við í tilefni sólarglætu!

Annars er ég að fara niður til Hamborgar á föstudaginn til að hitta Sigurvin. Hann ætlar að hitta mig þar. Það sem gerir þetta enn skemmtilegra er að tveir vinir mínir, Flórent og Moritz ætla að skella sér með. Við gistum heima hjá Moritz og kærustunni hans sem eru með íbúð í Hamborg (hún býr þar meðan Moritz er í skiptinámi í Árósum) og við ætlum öll að skella okkur á Trentemöller tónleika á Uebel und Gefährlich! Vei, ég hlakka svo til. Þetta verður svo gott partý!

Monday, March 1, 2010

Núna sit ég á flugevellinum í Frankfurt og er að bíða eftir að storminn lægi svo að hægt sé að fljúga frá vellinum. Akkurat þessa stundina er stormur að ganga yfir Þýskaland og nánast öllu flugi hefur verið frestað, nema Ameríku- og Asíufluginu. Sem betur fer var Sigurvin samferða mér upp á flugvöll, því að hann vantaði straumbreyti... og já, líka til að kveðja mig. Hann er orðinn eins og þýskir vinir sínir sem fara upp á flugvöll til að kaupa inn á sunnudögum. Allar aðrar búðir eru nefnilega lokaðar á sunnudögum. Þetta er sko rammkaþólskt lið hérna. En það var sko gott að hafa hann með mér í öllu þessu rugli hérna.

En það átti nú ekki af okkur að ganga að komast hingað. Fyrsta lestin sem við ætluðum að taka tvær stöðvar til að ná strætó sem fer beint upp á völl var 6 mínútum of sein af því að það var lest á teinunum, sem var ók í öfuga átt, þannig að lestin okkar þurfti að bíða á hliðarspori heillengi til að hleypa hinni fram hjá. Sem þýddi að við sáum í skottið á strætónum sem við ætluðum að taka hverfa fyrir hornið þegar lestin rann í hlað á þeirri stöð sem við þurftum að fara út á. Hressandi. Þá tókum við aðra lest eina stöð til baka til að reyna að ná öðrum strætó upp á völl. Fundum stoppistöðina auðveldlega, en gler þakið á henni var allt út í sprungum þar sem að tré hafði dottið ofan á hana stuttu áður og allt út í misstórum greinum. Stuttu síðar koma strætóinn okkar, en hann náði nú bara að keyra 300 metra inn aðra götu þegar allt var stopp því að það lá risastórt tré á veginum og slökkviliðið á staðnum að reyna að vinna í því að saga það í sundur. En strætóbílstjórinn okkar dó ekki ráðalaus, heldur bakkaði strætónum tilbaka út götuna sem við komum, og sveigði síðan inn langa einstefnuhjólagötu og brunaði þar til að hann komst utan um tré-sem-lá-yfir –götuna-svæðið. Á leiðinni mættum við öðru risastré sem lá þannig að það náði yfir ¾ af götunni. Herra úrræðagóður bara sveiflaði strætónum utan um tréð á fullri ferð. Einn greinilega vanur því að þurfa að kljást við fallin tré út um allt.

Loks þegar við vorum alveg að komast að flugvellinum, þá lentum við í umferðateppu, en Úrræðagóður missti þolinmæðina eftir svona 1 mínútu í biðröðinni og sveiflaði sér úr röðinni og brunaði einhverjar endalausar Autobahn-slaufur og komst þannig að flugvellinum án þess að lenda í bílastöppunni. Húrra fyrir honum.

Þegar inn var komið beið okkar ekkert betra. Raðir út í hið endalausa og næstum öllum flugum aflýst (það stóð ekkert um það á heimasíðunum sem við tékkuðum áður en við lögðum af stað upp á flugvöll). En mínu flugi til Kaupmannahafnar hafði ekki verið aflýst. Því var þó aflýst þegar við vorum búin að standa af okkur helming raðarinnar í check inn. Fékk þó að vita að ég hefði verið bókuð í nýtt flug 2.5 klst síðar. Það er nú ekkert agalegt. Er samt enn að bíða milli vonar og ótta að þessi nýi tími standi. Ekki það að ég hefði eitthvað á móti því að vera lengur hér í Frankfurt.

Við eurm búin að eiga frábæran tíma í Frankfurt saman. Við byrjuðum á því að fara niður til Frankfurt og shoppa Sonia Rykiel samfesting handa mér í afmælisgjöf. Eðal sko. Daginn eftir fórum við upp í Bornheim-hverfið hér í Frankfurt sem er án gríns svo mikil blanda af því að labba um í Berlín og Reykjavík á sama tíma. Fórum líka í japanska garðinn, sem er ótrúlega fallegur og notalegur garður inni í miðri borginni.

Hluti af kínverska garðinum í Frankfurt

Minns í kínverska tehúsinu

Við Sigurvin í á leið til Bornheim

Duttum inn í einhverja búð á Bergerstraße, sem var með fullt af fáránlega fínum skrýtnum hönnunarfötum á útsölu. Næs. Þannig að það var shoppað svolítið þar líka. Borðuðum svo á fáránlega góðum tælenskum stað í hverfinu.

Fyrrum fangelsi við hliðina á hæstarétti sem anarkistar/listamenn og heimilislausir tóku yfir síðasta sumar. Sigurvin minnti að lögreglan hafi gefist upp á að reyna að henda þeim út. Takið eftir hvítu lökunum sem er búið að binda saman og hanga í gluggarimlunum á 4. hæð.

Við aðalinnganginn á fangelsinu. Ætli þetta sé Banksy?


Þar sem að Sigurvin var bókaður í hermisæfingar frá kl. 13-21:30 á föstudagskvöldinu (afmælisdeginum mínum) þá vorum við bara búin að sjá fyrir okkur að vera bara róleg á föstudagskvöldinu og halda betur upp á afmælin okkar á laugardagskvöldinu. En svo kom bara í ljós að simulator-kennarana langaði að eiga langa helgi þannig að þeir hleyptu þeim út kl. 16 í stað 21:30. Þannig að við ákváðum að skella okkur út að borða á ítalskan stað sem við höfum einu sinni farið á áður, sem var mjög góður. Og einhvern veginn slógust 4 aðrir í hópinn og úr varð gott partý sem endaði svo á Velvet, sem er mjög töff næturklúbbur í Frankfurt, þar sem við dönsuðum frameftir nóttu.


Við á Mantis Roofgarden að fá okkur kokteila eftir að hafa borðað á ítalska staðnum.
Þessi gella var mjög hress á Velvet...

Susanne, Christofer og ég í snúning á Velvet

Mynd frá Velvet sem ég fann á netinu til að sýna rýmið. Allt svolítið hrátt og industrial.

Daginn eftir vöknuðum við "aðeins of" snemma vegna þess að einn “bekkjarbróðir” Sigurvins var búinn að bjóða bekknum að koma og heimsækja sig í vinnnuna á Ramstein US Air Base. Við sem ákváðum að fara, leigðum okkur bílaleigubíl og skelltum okkur til Ameríku.

Sigurvin og Cartman á leið til Ramstein. Stoppuðum til að fá okkur morgunmat á leiðinni.

Fengum að fara inn á visitor passa og skoðuðum þessa langstærstu herstöð Bandaríkjanna innan (allavega) Evrópu. Það búa 35.000 manns inn á vellinum og 65.000 með því fólki sem kýs að búa ekki inn á base-inu. Það var alveg augljóst að við værum komin til annars lands eða jafnvel annarar heimsálfu af vaxtarlagi og klæðaburði fólks að dæma. Svo marga hamborgararassa sér maður ekki á Íslandi, Danmörku eða Þýskalandi. Alveg magnað. Það sem einnig var magnað var að það angaði eiginlega allt af djúpsteikingarolíu. Eftir að hafa tekið Kanann á þetta og fengið okkur ekta US Burger, skelltum við okkur í “the mall”. Þar sem að ALLT þarna er selt á US verði, þá varð þetta bara eitt gott verslunartripp. Sigurvin keypti sér 21” Imac (af því að 27” var ekki til ákkurat þá stundina), myndavél og gallabuxur. Ég nýtti tækifærið og keypti mér snyrtidót, pínulítinn 500 gb flakkara, apple lyklaborð, stand fyrir fartölvuna mína og íþróttadót, af því að ég er alveg að fara að koma mér í form ;)

Um kvöldið fór Sigurvin með mig út að borða á stað, sem einn af kennurunum hans hafði bent honum á að væri frábær. Sigurvin vildi ekkert segja mér neitt um staðinn, ekki einu sinni hvað hann heitir, bara að hann hefði pantað borð á veitingastað fyrir okkur. Þannig að það var ótrúlega fyndið að komast að því þegar við komum þangað að hann var inni í lítilli byggingu sem hafði verið byggð sem flugstöðvarbygging og pínulítill flugvöllur við hliðina sem er notaður fyrir litlar rellur og/eða litlar einkaflugvélar alveg út í sveit. Það var einnig mjög fyndið að komast að því að það var einmitt svona “suður-þýskt food and fun” í gangi. Við pöntuðum okkur bara þannig matseðil, þannig að við vissum ekkert hvað við værum að fara að fá, sem var ótrúlega gaman. Það var líka mjög fyndið að allur maturinn var útskýrður á þýsku, þannig að við vissum í raun ekki mikið um hvað við værum eiginlega að borða eftir það, en það gerði þetta bara skemmtilegra.

###update

Komst ekki heim til Árósa fyrr en klukkan 5 í nótt og þá búin að vera á ferðalagi í 15 tíma. Alveg glatað.

Saturday, February 20, 2010

Febrúar mánuður

Nú er sko kominn tími á eitt stykki blogg!

Nú er maður bara byrjaður í skólanum. Reyndar byrjaði ég aftur í skólanum 1. feb, en það er önnur saga. Það er alveg fyndið hvað þessi skóli er... tja hvað skal segja... öðruvísi. Öðruvísi þarf ekki að þýða neitt neikvætt, bara öðruvísi en maður er vanur. Eitthvað er verra og eitthvað er betra en gamli góði LhÍ. Núna þegar ég hugsa til baka til LhÍ, þá brjótast fram rómantískar og væmnar minningar um hversu æðislegt allt var og blablabla. En ég minni mig alveg á að það var alls ekki alltaf ógeðslega gaman í LhÍ. En langoftast samt.

Nú erum við til að mynda að hefja önnina og að dönskum sið er allt unnið í hópavinnu. Sem er mestmegnis ágætt, en stundum þreytandi. Þá sérstaklega þegar einn einstaklingur af fjórum er mjög hópavinnulega-heftur. Þá á ég ekki við mig, þar sem að það er sko ógeðslega þægilegt að vinna með mér. En já, einn aðili skilur ekki að stundum þarf maður að beygja eigin vilja undir hópavinnuna og/eða gefa aðeins eftir stundum. Það læra þau greinilega ekki í skólunum Austurevrópu.

Við fórum svo öll til Kaupmannahafnar í 'studietur' sem var mjög fínt, fyrir utan hvað það var ógeðslega morð-ógeðis-kalt allan tímann. Það er svo fökk-mikill raki þarna sem gerir kuldann extra erfiðan. OG þar sem að ég er greinilega ekki betur gefin en það að ákveða að fara frekar í fína hversdagslega jakkanum mínum í stað brettaúlpunnar (valdi hann af því að ég nennti ekki að vera með tvær utanyfirflíkur með mér. Hugsaði að maður gæti endað á að fara á skemmtistað, og þá er ekki gaman að vera í brettaúlpunni sinni.) Semsagt, mjög léleg ákvörðun, sem er þar að auki er búin að koma mér í koll, þar sem að ég er búin að vera að kljást við mega kvef síðan ég kom aftur heim til Árósa. Vei fyrir því. Missti svo náttúruleg af skemmtilegum 'fredagsbar' í gærkvöldi, þar sem að ég var heima að deyja úr kvefi. Smart. Fékk mér samt einn bjór í gærkvöldi í sárabætur.

Random myndir í random röð frá Kaupmannahöfn:

Tietgen Kollegiet: Milli Örestad og Kaupmannahafnar. Byggt í hring (360 íbúðir - 360°). Stærstu kassarnir sem snúa inn í garðinn eru sameiginleg eldhús (fyrir 12 íbúðir í senn), næststærstu eru 'common rooms' hvert og eitt með sitt þema t.d. Playstation herbergið, sófa herbergið, borðspilaherbergið o.s.frv. Sjálf íbúðarherbergin snúa út frá þessum innri garði, þannig að þá er maður alveg prívat í sínu eigin herbergi, en öll sameiginlegu herbergin snúa inn í innri garðinn, sem þýðir einnig að fólk í öðrum sameiginlegum herbergjum á kollegínu sjá mann ef maður er að elda o.s.frv.
Já, Big. Maður verður nú að sjá öll þessi BIG verkefni, þó að maður sé nú ekki mjög hrifin af þessu. Sáum nokkur í viðbót, nenni bara ekki að setja inn myndir af þeim.

Nýr menntaskóli: Örestads Gymnasiet eftir 3xN. Mjög flott og gaman að koma þarna inn. Eiginlega hörmung að utan, en innri strúktúr er rosalega skemmtilegur.

Dong Orkuverið. Ekki mjög arkitektónískt. Finnst þetta bara falleg vetrarmynd. Eini staðurinn sem var hlýtt á. Mynd tekin við Havneholmen.

Hvítu byggingarnar nær: Havneholmen eftir Lundgaard-Trandberg. Kom skemmtilega á óvart þar sem að myndirnar sem maður var búin að sjá af þeim áður, voru ekki mjög spennandi.

Brúin: Bryggebroen eftir Dissing Weitling. 2006. Eingöngu fyrir hjól og fótgangandi. Olli miklum deilum, þar sem að mörgum fannst verið að loka á báta/skipaumferð. Fyrsta brúin sem reist er í Kaupmannahöfn í 50 ár.

Silo: Gemini Residence MVRDV 2005. Tvö síló sem var byggt utan um. Mjög exclusíft, en mjög skrifstofulegt þar að auki. Mega flott innra rými inni í sílóunum.
Nýtt hverfi við Langelinie: Þar eru svona litlir drekar á langflestum ljósastaurunum. Þeir eru einnig ljóslamparnir sjálfir. Hefði mikið verið til í að sjá þá 'at work' að kvöldi til. En þegar manni er skítkalt og þreyttur eftir daginn, þá er ekki mjög spennandi að fara og finna hverfið til að sjá dreka 'at work'.
Hef ekki hugmynd um hvað er að gerast þarna, en þetta lítur nógu skringilega út til að maður taki mynd af þessu.
Nýja Teater húsið við höfnina. Mjög flott. Ótrúlega flottur fídus að hafa þessi hangandi, mjóu ljós niður. Á kvöldin er þetta eins og stjörnuhiminn.
Allt frosið á Nyhavn... og reyndar alls staðar annars staðar. Allur sjór frosinn. Við prufuðum meira að segja að standa á frosnum sjó á einum stað. Það var magnað.

Ein skemmtileg í lokin. Þriggja hjóla Express Kebab á Carlsberg lóðinni. Þar eigum við að fara að vinna 'housing project'. Sjá: www.carlsbergbyen.dk

En í Kaupmannahöfn gisti ég fyrstu tvær næturnar hjá Fríði og Rikka, sem eru alveg frábær, og fiskunum þeirra. Síðustu þrjár næturnar gisti ég svo hjá Guðbjörgu, vinkonu Siggu, þar sem að Sigga gat ekki hýst mig, vegna plássleysis í nýju íbúðinni. Guðbjörg býr sko í gettóinu í Kaupmannahöfn. Þegar ég mætti á staðinn fyrsta kvöldið, var nýbúið að skjóta tvo dúdda í næstum sömu götu og löggan út um allt. Og svo vaknaði ég daginn eftir við miklar frygðarstunur í næstu íbúð. Og daginn eftir það. Og daginn þar á eftir.

En nú er minns á leið til Sigurvins þann 23. feb. Planið var að fljúga frá Kaupmannahöfn til Frankfurt, en þar sem að flugmenn Lufthansa ætla í verkfall 22-25. feb, þá getur verið að þetta breytist eitthvað. Glaaaatað. Er ekki alveg að nenna þessu. Sérstaklega þar sem að það tekur 50 mínútur að komast í gegnum símabiðröðina hjá ferðaskrifstofunni sem ég pantaði miðana hjá. Eins gott að ég keypti mér Skype credits. Voða þægilegt að láta tölvuna bara hringja fyrir sig og borga klink fyrir í stað þess að hækka símreikninginn um tugi þúsunda (ok, smá ýkjur) og þurfa að halda símanum upp að eyranu allan tímann, því að hátalarinn í símanum eyðir upp öllu batteríinu á no time. En ferðaskrifstofan veit ekkert hvað hún ætlar að gera í þessu fyrr en á mánudaginn. Stuð að hanga í svona lausu lofti með þetta... vúhú.

Fer í skírn á morgun. Kl. 9 um morguninn á morgun. Í öðrum bæ. Hver heldur skírn kl. 9 á sunnudagsmorgni? Danir! Í Danmörku eru skírnir svona morgun-thing. Demitt. Var áðan að skoða hvernig væri hægt að komast þangað og fékk þær upplýsingar að til þess að vera komin þangað fyrir kl. 9, þarf ég að leggja af stað héðan kl. 11 í kvöld og taka nokkra næturstrætóa og svo bíða fyrir utan kirkjuna í 6-7 tíma. Mér þykir það ekki mjög girnilegt (bæði vegna kvefs og lítils áhuga á að eyða laugardagsnóttum fyrir utan kirkjur í öðrum bæjum) og hef því spurt gestgjafana hvort það sé ekki einhver á leið í skírnina frá Árósum. Bleh. Er ekki búin að fá svar. Bleh.

Anyways, þá er ég farin að læra.