Til að mynda lendi ég mjög oft í því að þýskt eldra fólk biður mig um hjálp í stórmörkuðunum, þá helst til að hjálpa sér að finna eitthvað sérstakt, hjálpa því að ná í einhvern hlut sem er of hátt uppi, nú eða bara til að spjalla í röðinni. Þetta getur reynst manni erfitt, enda á eldra fólk meira til að tala við mann bæversku, sem er eins og allir vita ekki tungumál. Þið getið væntanlega séð fyrir ykkur hversu vandræðaleg samræða kom upp á milli mín og gamallar konu sem vildi ólm segja mér frá mjaðmaaðgerðinni sinni meðan við biðum í röð á kassanum. Hún var með tvær hækjur og var eitthvað að reyna að ná í veskið sitt eða eitthvað og ég spurði hana kurteisislega hvort hana vantaði aðstoð með eitthvað. Sú ljómaði í framan og með fyrirgreindri atburðarás lenti ég í mjaðmaaðgerðarrausi á bæversku. Ég er samt búin að komast að því að með að 'já-a' og þykjast vera hissa inn á milli þá fattar fólk yfirleitt ekki að ég skil ekki orð af því sem það er að segja.
Við skruppum til Íslands í sumarfrí í tæpar 3 vikur í júlí. Mikið var gaman að hitta allt fólkið aftur. Vildi nú bara helst að maður hefði haft lengri tíma. En þetta er allt svo flókið þegar maður á mörg 'heim'. Eins og núna er München 'heim' og var því líka mjög gott að komast 'heim til München' eftir að hafa verið á Íslandi. En við vorum dugleg að ferðast um landið (innan skynsamlegra vegalengda). Fórum upp í bústað á Þingvöllum, skruppum á Snæfellsnes, kíktum við í bústað við Andakílsá. En bróðurparturinn fór í að hangsa í uppáhaldinu, nefnilega 101.
Það kom okkur nú mest á óvart öll þessi túrista/lopapeysu/lunda/ísbjarnarbúðir sem greinilega hafa sprottið upp eins og gorkúlur í fjarvist okkar. Alveg hreint allt morandi í þessu. Og svo ekki sé minnst á þetta hugtak sem tröllríður öllu: Icelandic design. Hvað er það? Með því að labba aðeins um í mismunandi búðir komumst við að því að það er allt Icelandic Design, alveg sama hvort það er eitthver tryllingslega flott fatahönnun niður í það að vera einhver ógeðis gler-sullum-bulla-verk.
Einn af hápunktum Íslandsferðarinnar hlýtur að hafa verið ferðin upp í Kerlingarfjöll, sem var á vegum Hálandaferða Óskar. Þar var farið með okkur um jarðhitasvæðin sem jafnvel stendur til að virkja og fengum við miklar og góðar lýsingar frá tveimur jarðfræðingum um fyrirhuguð áform Landsvirkjunar. Mikið yrði það mikill skaði ef að af yrði. Þetta er svo fallegt og áhugavert svæði og svo merkilegt að í mínum bókum myndi það flokkast undir einhvers konar helgispjöll að hefja fleiri tilraunaboranir. Við tókum svo rosalega mikið af myndum í þessari ferð að það er rosa verk að ákveða hverjar séu bestar fyrir birtingu á veraldarvefnum.
Nærri strax eftir að við komum heim til München kom Anita vinkona mín í heimsókn. Hún gisti hjá okkur í tvær nætur og þótti okkur rosalega gaman að hafa hana. Henni kynntist ég í Árósum í skólanum, en hún var síðustu önn í skiptinámi í Stuttgart. Ég hafði áður heimsótt hana í Stuttgart í vetur og skemmtum við okkur vel saman þar, enda mikið að gerast þar... byggingalistarlega séð. Hún var nú sjálf alveg yfir sig hrifin af München og sagði að hún hefði nú örugglega komið hingað í skiptinám ef að kærastinn sinn hefði ekki verið fyrir í Stuttgart.
Strax eftir að Anita fór, komu tengdaforeldrarnir, Björk og Öddi í heimsókn. Það var rosalega gaman að hafa þau hérna hjá okkur. Við náðum að gera alevg heilan helling með þeim. Sigurvin leigði bíl og skruppum við að Neuschwanstein kastalanum (sem einnig er nefndur Disneykastalinn). Við fórum líka að einum aðal sumarleyfisstöðum Þjóðverja, Chiemsee, sem er stöðuvatn sem er aðeins minna en Þingvallavatn. Þar eru eyjar sem heita Herraeyja og Frúareyja. Á Herraeyju byggði sami brjálæðingurinn og byggði Disneykastalann sér eins konar eftirmynd af Konungshöllinni í Versölum í Frakklandi. Já þessi Ludwig II var alveg bilaður. Mæli með að fólk gúggli kauða til að kynna sér þennan Michael Jackson fortíðarinnar.
Við Sigurvin skildum þó gömlu hjónin eftir í München þegar við brunuðum til Frankfurt til að leysa út jólagjöfina okkar (frá okkur!). Nefnilega U2 tónleika á Allianz Arena. Vá hvað þetta var alveg rosalega mikil upplifun. Ég fór sko næstum að grenja. Bara næstum sko. Það eina sem skyggði á ferðina var að ég hafði óvart bókað hótel í sveitta ógeðslega rauða hverfinu í Frankfurt, sem er svo mikið gettó að manni er sagt að ganga allss ekki þar um á kvöldin og helst ekki á daginn. Við lögðum bílnum aðeins frá hótelinu og gengum að hótelinu og lentum næstum í manni sem var í svo mikilli fíkniefnavímu að hann henti heilu reiðhjóli út á götu og öskraði á ímyndaða vin sinn. Og hinu megin við götuna var ein hóra að halla sér upp að umferðarskilti í rifrildi við einhverja 4-5 gaura. Þegar við komum inn á hótelið þá var okkur tilkynnt að það hefði sprungið vatnsrör á hótelinu, þannig að það var búið að bóka okkur á annað hótel aðeins meira inni í hverfinu. Ekki gott. Við löbbuðum fyrir fyrsta hornið og þar var mjöf illa farin kona að reykja krakk í krakkpípunni sinni. Við hliðina á nýja hótelinu var íbúðablokk þar sem að eitthvað latínó gengi bjó...allir gaurarnir berir að ofan, geðveikt buffaðir úti á svölum, hlustandi á eitthvað latínórapp og galandi á hvern annan milli hæða. Fyrir utan hótelið sátu 5 manneskjur á útbreiddum pappakassa að betla og einn annar rótaði í ruslagámnum fyrir utan hótelið. Við löbbuðum stjörf inn á hótelið og þegar við sáum að ALLAR upplýsingar voru á kínhversku og að gaurinn í lobbýinu var óljóslega einn af kokkunum á kínverska matsölustaðnum við hliðina á, þá sagði Sigurvin: NEI, ég vil ekki láta bjóða mér þetta! KOMUM. Þannig að við enduðum á að fara á eina stærstu hótelkeðju í Þýskalandi af því að þá veit maður alveg að hverju maður gengur. hahaha. En þetta var rosleg 30 mín. lífsreynsla.
En fyrir þá sem ekki vita er ég að fara að verða sjóari. Sjipp-o-hoj! Já, ég er að fara á verktíð með Ásdísi á Norrænu. Við erum að fara að þjóna þar. Ég þarf að vera komin til DK-Esbjerg 28. ágúst og verð í vinnunni stanslaust í 4 vikur. Örugglega mikil þrælavinna, en ég er nokkuð viss um að þetta verður gaman. Ásdís er nefnilega alveg pínu skemmtileg :) þannig að það verður gaman hjá okkur. Ég ætla að reyna að koma við í Árósum áður til að ná í vetrarfötin mín sem ég neyddist til að skilja eftir hjá Maríu vegna þess að þau hefðu með engu móti náð að vera innan þeirra 20 kg sem mér leyfðist að taka með mér í flugið frá Árósum til München þegar ég flutti hingað í vor. Það þýðir nefnilega örugglega ekkert að vera bara í einhverjum sumarkjólum og sandölum hérna í vetur.
Nú er ég aldeilis búin að stikla á stóru hérna. Vil benda áhugasömum á að það er hægt að sjá myndir frá okkur á feisbúkk. Bestu kveðjur til ykkar skemmtilega fólksins.
VEI blogg!!
ReplyDeleteég er nokkuð ánægð með ghetto lífsreynsluna, þar sem ég hef farið í þó nokkur eftirpartý í breiðholtinu, held að þetta þroski mann bara!! ;)
hlakka til að deila með þér sjómannslífi! líf og fjör :)
Dessertinn
Sammála Ásdísi: VEI blogg!!
ReplyDeleteÆðislega gaman að lesa um ævintýrin ykkar og ég er sammála um Icelandic Design búðirnar í miðbæ Reykjavíku! haha! Hló líka dáldið upphátt að ghetto lífsreynslunni og gömlu kellunni í búðinni. Lenti sjálf í nokkrum svona steiktum uppákomum í Sviss. Ég held að gamla fólkið og skrítna fólkið sé með svona "fólk sem skilur mig ekkert" radar og herji bara á alla sem vita ekkert hvað er í gangi! :)
-María
hahaha vá skemmtilegt blogg !! gaman að allt gengur vel Ragna og skemmtu þér vel á norrænu, hljómar spennó :D
ReplyDeletekv Jóní
By the way, þegar ég las fyrirsögnina fyrst var ég ekki alveg viss um hvað þú ættir við
ReplyDelete"Nýbúinn"...Er hún strax að flytja frá Þýskalandi? OG af hverju 2 n??
Það var ekki fyrr en ég var búin að lesa allt og kommenta og skrollaði aftur upp að ég fattaði að ég hefði lesið Nýbúinn vitlaust. Gaman :)
Minnir mig á sögu um konu sem las auglýsingu um skóla-ger og velti því mikið fyrir sér hvað það þýddi. Hún fattaði seinna að það var skó-lager. haha.
Eníhú.
Haha, María þú ert svo mikil steik! Eníhú er samt best.
ReplyDelete