Monday, March 1, 2010

Núna sit ég á flugevellinum í Frankfurt og er að bíða eftir að storminn lægi svo að hægt sé að fljúga frá vellinum. Akkurat þessa stundina er stormur að ganga yfir Þýskaland og nánast öllu flugi hefur verið frestað, nema Ameríku- og Asíufluginu. Sem betur fer var Sigurvin samferða mér upp á flugvöll, því að hann vantaði straumbreyti... og já, líka til að kveðja mig. Hann er orðinn eins og þýskir vinir sínir sem fara upp á flugvöll til að kaupa inn á sunnudögum. Allar aðrar búðir eru nefnilega lokaðar á sunnudögum. Þetta er sko rammkaþólskt lið hérna. En það var sko gott að hafa hann með mér í öllu þessu rugli hérna.

En það átti nú ekki af okkur að ganga að komast hingað. Fyrsta lestin sem við ætluðum að taka tvær stöðvar til að ná strætó sem fer beint upp á völl var 6 mínútum of sein af því að það var lest á teinunum, sem var ók í öfuga átt, þannig að lestin okkar þurfti að bíða á hliðarspori heillengi til að hleypa hinni fram hjá. Sem þýddi að við sáum í skottið á strætónum sem við ætluðum að taka hverfa fyrir hornið þegar lestin rann í hlað á þeirri stöð sem við þurftum að fara út á. Hressandi. Þá tókum við aðra lest eina stöð til baka til að reyna að ná öðrum strætó upp á völl. Fundum stoppistöðina auðveldlega, en gler þakið á henni var allt út í sprungum þar sem að tré hafði dottið ofan á hana stuttu áður og allt út í misstórum greinum. Stuttu síðar koma strætóinn okkar, en hann náði nú bara að keyra 300 metra inn aðra götu þegar allt var stopp því að það lá risastórt tré á veginum og slökkviliðið á staðnum að reyna að vinna í því að saga það í sundur. En strætóbílstjórinn okkar dó ekki ráðalaus, heldur bakkaði strætónum tilbaka út götuna sem við komum, og sveigði síðan inn langa einstefnuhjólagötu og brunaði þar til að hann komst utan um tré-sem-lá-yfir –götuna-svæðið. Á leiðinni mættum við öðru risastré sem lá þannig að það náði yfir ¾ af götunni. Herra úrræðagóður bara sveiflaði strætónum utan um tréð á fullri ferð. Einn greinilega vanur því að þurfa að kljást við fallin tré út um allt.

Loks þegar við vorum alveg að komast að flugvellinum, þá lentum við í umferðateppu, en Úrræðagóður missti þolinmæðina eftir svona 1 mínútu í biðröðinni og sveiflaði sér úr röðinni og brunaði einhverjar endalausar Autobahn-slaufur og komst þannig að flugvellinum án þess að lenda í bílastöppunni. Húrra fyrir honum.

Þegar inn var komið beið okkar ekkert betra. Raðir út í hið endalausa og næstum öllum flugum aflýst (það stóð ekkert um það á heimasíðunum sem við tékkuðum áður en við lögðum af stað upp á flugvöll). En mínu flugi til Kaupmannahafnar hafði ekki verið aflýst. Því var þó aflýst þegar við vorum búin að standa af okkur helming raðarinnar í check inn. Fékk þó að vita að ég hefði verið bókuð í nýtt flug 2.5 klst síðar. Það er nú ekkert agalegt. Er samt enn að bíða milli vonar og ótta að þessi nýi tími standi. Ekki það að ég hefði eitthvað á móti því að vera lengur hér í Frankfurt.

Við eurm búin að eiga frábæran tíma í Frankfurt saman. Við byrjuðum á því að fara niður til Frankfurt og shoppa Sonia Rykiel samfesting handa mér í afmælisgjöf. Eðal sko. Daginn eftir fórum við upp í Bornheim-hverfið hér í Frankfurt sem er án gríns svo mikil blanda af því að labba um í Berlín og Reykjavík á sama tíma. Fórum líka í japanska garðinn, sem er ótrúlega fallegur og notalegur garður inni í miðri borginni.

Hluti af kínverska garðinum í Frankfurt

Minns í kínverska tehúsinu

Við Sigurvin í á leið til Bornheim

Duttum inn í einhverja búð á Bergerstraße, sem var með fullt af fáránlega fínum skrýtnum hönnunarfötum á útsölu. Næs. Þannig að það var shoppað svolítið þar líka. Borðuðum svo á fáránlega góðum tælenskum stað í hverfinu.

Fyrrum fangelsi við hliðina á hæstarétti sem anarkistar/listamenn og heimilislausir tóku yfir síðasta sumar. Sigurvin minnti að lögreglan hafi gefist upp á að reyna að henda þeim út. Takið eftir hvítu lökunum sem er búið að binda saman og hanga í gluggarimlunum á 4. hæð.

Við aðalinnganginn á fangelsinu. Ætli þetta sé Banksy?


Þar sem að Sigurvin var bókaður í hermisæfingar frá kl. 13-21:30 á föstudagskvöldinu (afmælisdeginum mínum) þá vorum við bara búin að sjá fyrir okkur að vera bara róleg á föstudagskvöldinu og halda betur upp á afmælin okkar á laugardagskvöldinu. En svo kom bara í ljós að simulator-kennarana langaði að eiga langa helgi þannig að þeir hleyptu þeim út kl. 16 í stað 21:30. Þannig að við ákváðum að skella okkur út að borða á ítalskan stað sem við höfum einu sinni farið á áður, sem var mjög góður. Og einhvern veginn slógust 4 aðrir í hópinn og úr varð gott partý sem endaði svo á Velvet, sem er mjög töff næturklúbbur í Frankfurt, þar sem við dönsuðum frameftir nóttu.


Við á Mantis Roofgarden að fá okkur kokteila eftir að hafa borðað á ítalska staðnum.
Þessi gella var mjög hress á Velvet...

Susanne, Christofer og ég í snúning á Velvet

Mynd frá Velvet sem ég fann á netinu til að sýna rýmið. Allt svolítið hrátt og industrial.

Daginn eftir vöknuðum við "aðeins of" snemma vegna þess að einn “bekkjarbróðir” Sigurvins var búinn að bjóða bekknum að koma og heimsækja sig í vinnnuna á Ramstein US Air Base. Við sem ákváðum að fara, leigðum okkur bílaleigubíl og skelltum okkur til Ameríku.

Sigurvin og Cartman á leið til Ramstein. Stoppuðum til að fá okkur morgunmat á leiðinni.

Fengum að fara inn á visitor passa og skoðuðum þessa langstærstu herstöð Bandaríkjanna innan (allavega) Evrópu. Það búa 35.000 manns inn á vellinum og 65.000 með því fólki sem kýs að búa ekki inn á base-inu. Það var alveg augljóst að við værum komin til annars lands eða jafnvel annarar heimsálfu af vaxtarlagi og klæðaburði fólks að dæma. Svo marga hamborgararassa sér maður ekki á Íslandi, Danmörku eða Þýskalandi. Alveg magnað. Það sem einnig var magnað var að það angaði eiginlega allt af djúpsteikingarolíu. Eftir að hafa tekið Kanann á þetta og fengið okkur ekta US Burger, skelltum við okkur í “the mall”. Þar sem að ALLT þarna er selt á US verði, þá varð þetta bara eitt gott verslunartripp. Sigurvin keypti sér 21” Imac (af því að 27” var ekki til ákkurat þá stundina), myndavél og gallabuxur. Ég nýtti tækifærið og keypti mér snyrtidót, pínulítinn 500 gb flakkara, apple lyklaborð, stand fyrir fartölvuna mína og íþróttadót, af því að ég er alveg að fara að koma mér í form ;)

Um kvöldið fór Sigurvin með mig út að borða á stað, sem einn af kennurunum hans hafði bent honum á að væri frábær. Sigurvin vildi ekkert segja mér neitt um staðinn, ekki einu sinni hvað hann heitir, bara að hann hefði pantað borð á veitingastað fyrir okkur. Þannig að það var ótrúlega fyndið að komast að því þegar við komum þangað að hann var inni í lítilli byggingu sem hafði verið byggð sem flugstöðvarbygging og pínulítill flugvöllur við hliðina sem er notaður fyrir litlar rellur og/eða litlar einkaflugvélar alveg út í sveit. Það var einnig mjög fyndið að komast að því að það var einmitt svona “suður-þýskt food and fun” í gangi. Við pöntuðum okkur bara þannig matseðil, þannig að við vissum ekkert hvað við værum að fara að fá, sem var ótrúlega gaman. Það var líka mjög fyndið að allur maturinn var útskýrður á þýsku, þannig að við vissum í raun ekki mikið um hvað við værum eiginlega að borða eftir það, en það gerði þetta bara skemmtilegra.

###update

Komst ekki heim til Árósa fyrr en klukkan 5 í nótt og þá búin að vera á ferðalagi í 15 tíma. Alveg glatað.

3 comments:

  1. Vá mega blogg, greinilegt að það var gaman á fluvellinum eftir að ég fór ;) Takk fyrir góðar stundir í Frankfurt.

    ReplyDelete
  2. Tek undir með Sigurvin, mega blogg, fáránlega skemmtilegt! :) Maður fyllist nú af ferða öfund við þennan lestur.... skemmtilegt ævintýri hjá ykkur krúttin mín!
    Heyrumst!
    Dessertinn

    ReplyDelete