Friday, June 24, 2011

Karlmannlegt

Ég fékk þá ábendingu frá dyggum lesanda bloggsins að mín síðasta færsla hefði verið "frekar gay." Því ætla ég að bæta úr því og einungis skrifa um það sem almennt er talið mjög hardcore.

Ég fór út að hlaupa með Sigurvini í morgun, það var mjög karlmannlegt. Hlupum rúmlega 6 km og ég hélt að ég myndi deyja eftir það. Það var hins vegar ekki mjög karlmannlegt af mér.

Við keyptum okkur hjól um daginn. Notuð, en fín hjól samt sem áður og í góðu standi. Ég þarf reyndar að láta athuga gírana mína. Þar sem að hvorki ég né Sigurvin erum nógu karlmannleg til að geta fundið út úr því hvernig maður gerir við gíra, þá ætla ég að kíkja með gripinn á mjög svo karlmannlegt verkstæði hér í grendinni.

Við fórum samt í hjólaferð um daginn, þó að 1/3 af gírunum mínum væru í ólagi. Það var gaman. Og karlmannlegt. Ég ætla að sleppa því að lýsa hvað skógurinn og áin voru falleg. Það væri ekki mjög karlmannlegt af mér og ekki í anda þessarar færslu.

Annars ætla ég að kíkja út og hitta vinkonu mína í kvöld, því að Sigurvin er alltaf að vinna á kvöldin núna. Ég ætla bara að fá mér líterskönnur af bjór... og grísarif með bbq sósu. Það er nefnilega svo karlmannlegt. Og kannski neyði ég hana til að hitta mig á einhverjum írskum sportbar. Það væri, já rétt til getið, mjög karlmannlegt.




Wednesday, June 15, 2011

Svalirnar

Litla paradísin mín úti á svölum er öll í blóma. Fyrsta jarðarberjauppskeran er tilbúin. Sæt lavenderlyktin hangir í loftinu. Sólin skín og grillið er að hitna...



Monday, June 6, 2011

Hvar á maður að byrja þegar maður hefur ekkert bloggað í fáránlega langan tíma þegar fáránlega margt hefur á daga manns drifið síðan síðast? Það er nefnilega aldrei nein lognmolla hjá okkur hérna í München.

Til að gera langa sögu stutta, þá lauk ég skiptinámsönninni minni í byrjun febrúar. Önnin var mjög strembin en ég naut þess að hafa svona rosalega mikið að gera. Ég er alveg á því að þýski skólinn krefjist meira vinnuframlags af nemendum sínum almennt heldur en í Árósum. Í Danmörku til dæmis er hönnunaráfanginn sjálfur 30 einingar. Hér er hönnunaráfanginn 12 einingar. Báðir þessir hönnunaráfangar krefjast jafn mikils vinnuframlags, en hér þurfti ég þá að taka 18 auka einingar til að ná uppí þessar 30 einingar. Það var frekar töff. En ég marði það með smá hjálp frá góðum vinum.

Ég hugsaði alveg um að skipta um skóla, því að líf okkar hér er svo ljúft. En skólinn hér er ekki til í að meta annirnar mínar í DK, yrði því næstum að byrja upp á nýtt í framhaldsnáminu. Þannig að við ákváðum að ég færi nú bara aftur til Danmerkur í haust til að klára þessa einu önn sem vantar upp á.

Við erum bæði búin að kynnast fullt af frábæru fólki hérna. Það eru eiginlega allir eitthvað svo fínir og almennilegir við okkur. Ég eignaðist mjög góða þýska vini í hönnunaráfanganum sem hafa svo kynnt mig fyrir vinahópnum sem svo tók á móti mér opnum örmum. Það er eitthvað við þýska mentalitetið sem bara smellur hérna hjá okkur... æi svona svartur húmor og örugglega einhverjar svipaðar heilabylgjur.

Lokamódel af verkefninu mínu sem ég vann í samvinnu við fína franska stelpu.

Eftir að skólaönninni lauk hjá mér skruppum við heim til Íslands til að hitta fjölskyldu og vini. Við ákváðum nefnilega að halda jólin hér í München og fengum mömmu, Gunnar og Eyjólf Inga til að koma til okkar. Það var ekkert smá notalegt að fá þau og líka gaman að geta sýnt þeim lífið okkar. Við héldum aðeins óhefðbundin jól hérna, fórum til að mynda í Dachau útrýmingabúðirnar á jóladag og fórum út að borða hamborgara um kvöldið.

Rétt eftir að við komum heim frá Íslandi í byrjun mars fór ég með tveimur vinum í vikuferð til Parísar að undirbúa verkefni sem við höfðum fengið úthlutað af skólanum. Verkefnið er að teikna upp gamalt byggingakomplex í útjaðri París og skila svo inn óaðfinnanlegum teikningum af öllu klabbinu. Var því ferðin til Parísar ætluð til gagnasöfnunar og ljósmyndatöku. Ég fékk að gista hjá Ásdísi vinkonu minni og áttum við frábæra daga saman. Eina sem skyggði á alla ferðina var ein lítil frakkastelpa sem er með okkur í þessum verkefnahóp. Hún var og er algjörlega friggin óþolandi, óalandi og óferjandi. En við förum ekki nánar út í það á þessu bloggi.

Alltaf sami klassinn yfir þessari París...

Ég og Ásdís á góðri stund. Held að við höfum meira að segja verið að rónast á bekk með hvítvínsflösku. Góðir tímar.

Hópurinn minn: fröken Óþolandi, Kevin og Julian

Fallegt götuhorn í París.

Stuttu eftir heimkomu frá París skelltum við Sigurvin okkur í brettaferð til Austurríkis með vinahjónum okkar. Það var alveg geðveikislega gaman... sérstaklega af því að ég hafði fengið lánað bretti og skó frá vinkonu minni hér. Mitt brettadót er orðið svo rosalega gamalt að ég held að ég gæti næstum ánafnað Þjóðminjasafninu því. Það er enginn smá munur að nota nýjar græjur. Algjör snilld. Loksins gat ég massað það að vera á snjóbretti, þó svo að Sigurvin hefði nú á orði að ég færi nú frekar hægt. En allur er varinn góður... og því var ég búin að fá mér snjóbrettahjálm. Fjólubláan sko! Núna er ég sko ein af svala fólkinu með hjálm. Hér þykir fólki maður vera fáviti ef maður er ekki með hjálm.

Grant, Susanne, ég og Sigurvin

Ekki amalegt veður!

Sigurvin og stóra köngurlóin sem er rétt hjá Krystalhütte.

Það er augljóslega hægt að sörfa hvar sem er...

Ekki ónýtt skíðasvæði

Meðan við vorum að brettast í Zillertal í Austurríki fengum við tölvupóst frá eigandanum að íbúðinni sem við bjuggum í í München. Hann vildi okkur út, því að við höfðum spurt hvort við mættum leigja íbúðina áfram, þá án húsgagna, því að okkur leið svolítið eins og við ættum heima á hóteli í þessari fullbúnu íbúð. Við vorum þá þegar búin að leigja hana í næstum ár og komin tími til að fara að fá sér sinn eigin sófa o.þ.h. Karlinn var nú ekki alveg til í það, þannig að úr varð að við ákváðum að finna okkur aðra íbúð til að búa í. Nú voru góð ráð dýr, þar sem að við vorum að fara til Sri Lanka nokkrum dögum síðar. Haldið þið ekki bara að Sigurvin hafi ekki fundið þessa fínu íbúð fyrir okkur, staðsetta eingöngu 5 mínútum frá íbúðinni sem við áttum heima í. Úr varð að við myndum flytja inn í hana 1. maí, tveimur vikum eftir að við kæmum heim frá Sri Lanka.

Ferðin til Sri Lanka var algjör draumur. Það er svo rosalega fallegt þarna, fólkið er svo almennilegt og gott. Maður var bara í sæluvímu þarna. Hótelið var alveg frábært. Það er staðsett alveg við suðurströnd eyjarinnar. Ströndin er alveg hvít og pálmatrén ramma inn heiðbláan sjóndeildarhringinn. Við fórum á köfunarnámskeið sem tók 3 daga. Núna megum við kafa niður á 18 metra dýpi. Við hittum alla fiskana sem léku í Finding Nemo, nema Nemo sjálfan. Hann hefur kannski bara verið með smá stjörnustæla. Við heimsóttum te-ekrur, ayurveda heilsugarða, skjaldbökubjörgunarstöð, tönn Búdda, fílabúgarð og margt, margt fleira.

Eiginlega enginn skuggi. Maður þarf sko að vera með hettu eða regnhlíf út af sólinni.

Sigurvin og ég að pósa með blinda fílnum.

Á skjaldböku-björgunar-setrinu. Við "keyptum" 20 skjaldbökur sem við fengum að sleppa í sjóinn. Það var svakalega sætt að sjá þær spretta áfram í sandinum að reyna að ná sjónum.

Fallegt sólarlag við Galle.

Maður verður nú að pósa á hvítu ströndinni.

Annað markvert sem kom upp á var að Sigurvin tókst svona þvílíkt vel að koma mér á óvart og var búinn að skipuleggja einka-5 rétta kvöldverð í tunglskininu á ströndinni í samráði við brytann og bað mín. Ég náttúrulega stenst ekki svona mikla rómantík og flaug á bleiku skýi væmninnar það sem eftir lifði kvölds. Sigurvin innsiglaði þetta svo með ofsa fallegum hring sem hann hafði keypt áður en við fórum til Austurríkis á bretti. Málið er samt að hann lét hring á mig sem þýðir að ég er lofuð, en hann er ekki með neinn hring, þannig að hann heldur því fram að hann geti enn gert það sem hann vill. Hans orð, ekki mín! haha.

Eftir heimkomu tók við rosa stress með að flytja. Hér í Þýskalandi er hefð fyrir því að íbúðir eru seldar og leigðar án eldhúss. Við þurftum því að fara í að kaupa okkur eldhús. Þar sem að við vorum nú ekki búin að kaupa okkur nein húsgögn áður, þá tóku við endalausar ferðir í milljón mismunandi húsgagnabúðir. Það er nú ekki um auðan garð að gresja hér hvað þau mál varðar. Mamma kom í heimsókn til okkar rétt áður en við fluttum og að sjálfsögðu tekur maður sér smá frí frá stressi og stússi þegar mömmu manns ber að garði. Við skelltum okkur til Salzburg saman og skoðuðum gamla bæinn og kastalann. Mikið rosalega er Salzburg falleg. Við höfðum nú bara ekkert komið þangað síðan 2006 eða 2007. Mamma var líka ofsalega dugleg að koma með okkur í húsgagnabúðir og hjálpaði okkur að velja inn í nýja eldhúsið.

Við mamma í Kloster Andechs bjórgarðinum rétt fyrir utan München.

Ég og Sigurvin að spóka okkur í sólinni í Salzburg.

Ég og mamma á göngugötunni í Salzburg.

Fallegt útsýni yfir borgina frá kastalanum.

Flutningar eru frekar mikið project þegar maður býr á 6. hæð og með engri lyftu. Það voru því mjög þreyttar lappir sem lögðust til hvíldar þann daginn. Sem betur fer fengum við hjálp frá vini Sigurvins. Hann átti sko skilið Thule.

Við tók einn mánuður af eldhús- og sófaleysi. Já! Þið lásuð rétt. Hér í Þýskalandi er allt sérsmíðað fyrir þig. Það þýðir ekkert að labba inn í búð og segja 'mig langar í þennan sófa núna'. Onei, þá þarf að sérpanta hann fyrir þig og þú færð að ráða áklæðinu og löppunum og öllu því. Það er eiginlega ekkert til á lager... enda allt sérsmíðað hér í Þýskalandi.

Pabbi og Stína komu til okkar í rúmlega viku meðan á þessum x-lausa mánuði stóð. Pabbi hélt upp á fimmtugs afmæli sitt hérna hjá okkur og buðum við þeim ýkt ótrúlega fínt út að borða á stað hérna nálægt sem heitir Nektar. Delisssiösss. Við plömpuðum með þau út um alla borg, sýndum þeim nær alla króka og kima auk þess sem að við skruppum í ferð til Königssee, sem er án gríns eitt magnaðasta stöðuvatn sem ég hef séð.

Á siglingu um Königssee.

Trítluðum aðeins þarna inn eftir.

Fallegu blómaengin þarna í kring.

Pabbi og Stína á góðri stund.

Við fengum þessa líka brakandi blíðu og skelltum okkur í smá hringsiglingu um vatnið sem liggur alveg að klettarótum alpanna. Bergmálið þarna er alveg æðisgengið. Svo um leið og við settumst inn í bílinn til að keyra heim, byrjaði að rigna, þannig að það var alveg pörrrrfekt.

Við Sigurvin úti að borða með pabba og Stínu á afmælinu hans pabba.

Við erum svona hægt og rólega búin að vera að gera íbúðina klára. Hún er að okkar mati alveg að detta í það að verða "okkar". Sumarið er löngu komið og það er grillað út á svölum a.m.k. tvisvar í viku og skolað niður með ljúfum veigum.

Huld, systir mömmu var hjá okkur í nokkra daga eftir að hafa verið á námskeiði í Stuttgart. Við áttum hér mjög notalegar stundir með henni. Hún hafði nú komið nokkrum sinnum áður til München í denn og þótti gaman að koma aftur og sjá hvað hefur breyst.

Amma kemur í til okkar í nótt og ætlar að vera hjá okkur í 10 daga. Við ákváðum að bjóða henni til okkar, því að amma er alltaf svo hress og skemmtileg og allaf til í tuskið. Einnig hefur hún hjálpað okkur svo mikið í gegnum árin þessi elska. Meðal annars pakkaði hún niður öllu eldhúsdótinu okkar þegar við fluttum út til Þýskalands. Ég er að plana að skella mér með hana eitthvað út fyrir landsteinana... væntanlega í suðurátt. Held að það væri ofsalega gaman að fara með henni til Verona á Ítalíu. Sjáum hvað setur.

Við komum sjálf heim 22. júlí - 15. ágúst. Stefnan er sett á giftingu 13. ágúst... sem er laugardagur en ekki föstudagur! ;) Annars stendur bara til að fara í fjallgöngur, veiði o.þ.h. heima á Íslandi í sumar. Þangað til lætur maður sér það nægja að klifra eitthvað um í ölpunum og chilla í bjórgörðunum.

Saturday, October 2, 2010

Öppdeit

Eftir að við Sigurvin komum aftur heim til München eftir frábæra daga heima á Íslandi, vorum við næstum með stöðugan gestagang. Til að byrja með kom Anita, norsk vinkona mín úr skólanum í Árósum, í heimsókn í tvo daga. Hún var sjálf að klára sitt skiptinám í skóla í Stuttgart og ákvað að nýta tækifærið og kíkja við í München. Hún átti ekki orð yfir því hvað borgin væri æðisleg og er hún núna að plana endukomu seinna í þessum mánuði.

Við Anita á góðri stund í enska garðinum.

Björk og Öddi

Strax þar á eftir komu tengdó, Björk og Öddi, í heimsókn. Þau voru hér í 12 daga og var mikið gert og mikið farið meðan á þeirri heimsókn stóð. Við fórum meðal annars niður að Schloß Neu Schwanstein, sem er fyrirmyndin að Disney lógóinu (þið þekkið nú væntanlega öll kastalann í Disneylógóinu).

Neu Schwanstein

Alparnir að speglast í vatninu við Neu Schwanstein.

Þar sem að GPS tækið okkar, hún Ráðhildur, getur verið ansi skrýtin, þá lét hún okkur fara alla litlu, krúttlegu sveitavegina þangað niður eftir. Það er alveg magnað að fara þessa litlu vegi, því að þeir leiða mann gegnum skóga, meðfram vötnum og gegnum pínulítil þorp, þar sem öll húsin eru allavega 300 ára gömul og skilti fyrir utan næstum hvert og eitt þar sem að heimatilbúnar matvörur eru boðnar til sölu s.s. mjólk beint úr kúnni, heimagerðar sultur, nýveiddir silungar og þurrir brenniviðarbútar. Maður býst jafnvel við að á hverri stundu ryðjist riddarar og drekar fram, því að þetta er allt svo ævintýralegt.

Chiemsee

Við fórum einnig niður að Chiemsee vatninu, sem er ein helsta ferðamannaparadís Þýskalands. Chiemsee er mjög stórt stöðuvatn, svipað stórt og Þingvallavatn og þangað fara Þjóðverjar til að hanga á ströndinni, leigja sér bát eða synda. Við vorum ótrúlega heppin með veðrið, því það var alveg glampandi sól. Við keyptum okkur dagsmiða í ferjurnar og gátum því siglt fram og tilbaka eins og okkur lysti. Þarna er einnig að finna nokkrar eyjar út í miðju vatni og á einni þeirra sem kölluð er Herreninsel er risastór höll í anda Versala. Hana lét sami gæi byggja og byggði Disney kastalann. Hann var svona Michael Jackson síns tíma. Hann lokaði sig alveg frá umheiminum, eyddi öllum peningum fylkisins í eitthver einka-geðveikisverkefni þangað til honum var steypt af stóli.

Fraueninsel

Chiemsee í brakandi blíðu

Stuttu eftir að tengdaforeldrarnir voru farin aftur heim til Íslands, fengum við heimsókn frá Ásdísi vinkonu okkar, sem ákvað að skreppa til okkar frá Sviss, þar sem hún hafði verið í heimsókn.

Ásdís og Sigurvin eftir að Sigurvini tókst að missa allt klinkið sitt
ofan í bjórinn sinn. Geri aðrir betur!

Henni leist svona líka vel á allt hérna að hún ákvað að vera hjá okkur það sem eftir lifði ferðar. Við fórum með hana í Dýragarðinn og skríktum við eins og smákrakkar yfir öllum dýrunum, líka Sigurvin sko!

Þessari mynd stal ég frá Ásdísi því að mér finnst þetta óborganlega fyndin mynd.


Þessi var helvíti hress.


Sigurvin, má ég eiga sel? gússíbú!

Þegar hér kemur til sögu var Ásdís búin að spyrja mig hvort að mig langaði að koma með henni að vinna á Norrænu í einn mánuð. Mér fannst ég ekki getað neitað því tilboði, þar sem að ég var búin að vera atvinnulaus í allt sumar. Önnur ástæða var af því að skólinn byrjar svo seint hjá Þjóðverjunum og hafði ég því fullt af tíma til að skella mér. Úr varð að ég skellti mér með henni á Norrænu.

Til að byrja með þá kíktum við til Árósa, þar sem við gistum hjá Guðna og kíktum á Árósa festivalið sem var að byrja þá. Það var rosa gaman að sjá borgina í sparibúningnum sínum. Það var til að mynda búið að koma fyrir stóru grænu landslagi á miðju aðaltorginu, sem er venjulega bara grátt og leiðinlegt og tómt ferlíki. Einnig voru þar haldnir mis góðir tónleikar... aðallega vondir.

Við flúðum miðborgina í smá stund og fengum okkur
einn bjór út í "garðinum" hans Guðna.


Guðni og Ásdís... og kippan

Við náðum líka að hitta Maríu aðeins, sem var með mömmu sína í heimsókn ákkurat á sama tíma. Þar sem að mömmur ganga alltaf fyrir, þá náðum við ekki að hitta hana mikið, en María ákvað því bara að bjóða okkur í frábæran brunch með heimabökuðum gulrótabollum og öðru gúmmelaði.

Við Ásdís tókum svo lestina til Esbjerg þar sem Norræna kom að landi. Hún er eiginlega miklu stærri og meiri en ég hafði gert mér í hugarlund.

Norræna við landfestar á Seyðisfirði

Seyðisfjörður by night.

Seyðisfjörður og Norræna á góðum degi.

Við Ásdís bjuggum saman í káetu og vil ég halda að sú sambúð hafi gengið bara ágætlega. Það sem kannski bjargar þessu er að þegar maður er ekki að vinna, þá er maður sofandi. Og sofa er það sem maður gerir sko mikið af þarna. Maður reyndi sko að grípa allan lausan tíma til að sofa, enda hef ég nú þróað með mér þann undraverða hæfileika að geta sofnað hvenær sem er. Það getur verið þægilegt stundum. Ég fór nú alveg nokkrum sinnum í ræktina um borð. Það er eitthvað alveg ótrúlega steikt að reyna að hlaupa beint á hlaupabretti um borð í skipi. Ég er viss um að það reynir meira á en hlupabretti á landi. Maður þarf sko þvílíkt að hafa fyrir því að halda sig á brettinu. Það að fara í sund þegar er vont í sjóinn er alveg ótrúlega fyndið. Þá hendist maður sko til og frá eins og gúmmíönd og ræður ekki neitt við neitt.

Mér fannst fyrsta vikan frekar erfið, en alltaf skánaði vistin. Það var samt erfitt að vera svona lengi frá Sigurvini, sem lét mig nú oft vita að honum fyndist nú komið nóg og að ég ætti að leggja frá mér það sem ég væri að gera og koma bara heim til München. Það sem bjargaði þessu öllu var náttúrulega þessi frábæri félagsskapur um borð. Kynntist frábærum stelpum sem allar voru að safna sér fyrir einhverjum frábærum áformum. Ein var að safna pening til að flytjast til Stokkhólms, önnur að safna pening til að notað meðan hún væri í sjálfboðavinnu við að sjá um tígrisdýr á Thailandi og ein sem ætlar að flytjast til Suður Frakklands til að læra frönsku. Svo kynntist ég líka einum strák sem var að safna sér fyrir því að komast í frönskuskóla í Senegal, því að hann langar að tala frönsku með afrískum hreim. Bróðir hans var einmitt að fara að vinna á náttúruverndarsvæði fyrir ljón í Simbabwe og Zambíu. Mjög magnað alveg hreint.


Atlantshafið á góðum degi!

Annað sem var alveg frábært við þessa vinnu var til að mynda útsýnið sem maður fékk (þegar var gott í sjóinn það er að segja!) Og það þriðja góða var það að komast til Færeyja, sem ég er ekki viss um að ég hefði nokkurn tíma gert, nema vegna þess að ég var fyrir einhver undarleg örlög endaði á Norrænu. Þórshöfn er í marga staði alveg ótrúlega fallegur bær. Læt myndirnar tala sínu máli.

Ásdís og Rannveig í Þórshöfn

Týpísk gata í Þórshöfn, minnir mann svolítið á Akureyri.

Haustið komið til Þórshafnar.

Nýmóðins byggingar er líka að finna í Þórshöfn.


Höfnin þétt fléttuð inn í borgina!

Sushi staður-INN í Þórshöfn

Það sem er svo frábært við tímann er að hann getur verið svo lengi að líða en svo þegar maður lítur tilbaka þá finnst manni svo stutt síðan allt gerðist. Þannig var það þear ég leit tilbaka á Norrænu eftir að hafa lokið mánaðarvinnunni og veifaði Ásdísi bless. Nú hlakka ég mest til að fá peningana mína, sem gæti þó tekið svolítinn tíma að fá (hef heyrt að færeyska bankakerfið sé ekki mjög skilvirkt).

Strax daginn eftir að ég kom heim aftur fórum við Sigurvin á Októberfest, sem er eins og allir vita árleg drykkju- og gleðiveisla hér í München. Borgin er núna alveg troðfull af fólki sem kemur hvaðanæva að til að taka þátt í Októberfest. Það er næstum skylda að vera í hefðbundnum bæverskum búningum á hátíðinni og ákváðum við Sigurvin að taka þetta mjög hátíðalega og skelltum okkur í sitt hvorn heilbúninginn.

Ég í Dirndl-inum og Sigurvin í Lederhosen.

Það var alveg ótrúlega gaman að hafa upplifað októberfest, en þetta er samt svo rosalega mikið fyrirbæri og orkusuga að maður fer nú ekki oft niður á engi til að taka þátt.

Það er hægt að dunda sér við ýmislegt á Októberfest, eins og til dæmis að kúldrast saman í hrúgu. Mjög karlmannlegt.


Mynd af Októberfest-tjaldinu sem við vorum í...
meðan allir voru enn svolítið dannaðir... og enn í fötunum.

Nú bíð ég bara eftir því að skólinn minn byrji, sem á að vera í kringum miðjan mánuðinn. ÉG fór í dag og keypti mér skissublokk, blý og vatnsliti, því að ég ætla að nýta tímann og æfa mig að teikna áður en skólinn byrjar. Keypti meira að segja teiknibók líka... á þýsku og geri aðrir betur.